„Alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt“

Birgir S. Birgisson í októberstjörnuhafi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Birgir S. Birgisson, hjá garðyrkjustöðinni Ficus í Hveragerði, býður nú í fyrsta skipti upp á bleikar októberstjörnur, sem vakið hafa mikla athygli.

Októberstjarnan er náskyldur ættingi jólastjörnunnar, sem allir þekkja, en Birgir hefur verið einn stærsti ræktandinn á jólastjörnum á landinu undanfarin ár.

„Þegar maður er búinn að vera svona lengi í þessum bransa þá er alltaf gaman að prófa eitthvað nýtt og það er aldrei að vita nema þetta geti orðið byrjunin á einhverju stærra,“ sagði Birgir í samtali við sunnlenska.is.

Hann flutti inn eittþúsund litlar plöntur frá Hollandi og hafa þær verið í ræktun í garðyrkjustöðinni við Bröttuhlíð í Hveragerði undanfarnar vikur og standa nú í fullum blóma í október.

„Mig langaði, í tilefni af bleikum október, að sjá hvort að þetta myndi ekki falla í kramið hjá fólki á þessum tíma. Plantan heitir J’Adore Pink en ég ákvað að einfaldast væri að kalla hana októberstjörnu,“ segir Birgir en hann selur októberstjörnurnar í allar betri blómabúðir, svo hægt er að finna þær víða.

Októberstjarna. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri grein57 í einangrun á Suðurlandi
Næsta greinSunnlendingar kunna að meta að fá heimsendan fisk