Alltaf einhverjir að versla á nóttunni

„Það hefur gengið mjög vel þó verslunin hefði mátt vera meiri. Það eru alltaf einhverjir ferðamenn í versluninni á nóttunni, hvort sem þeir eru að pissa, fá sér kaffi eða versla,“ segir Örn Sigurðsson, rekstrarstjóri hjá Víkurprjóni í Vík.

Verslunin er opin á nóttunni í fyrsta skipti í sumar. Ferðamennirnir eru mest á ferðinni upp úr miðnætti og síðan snemma á morgnana. „Það er alltaf einhver inn í versluninni þegar ég mæti í vinnu klukkan sjö,“ bætir Örn við.

Mikil ánægja hefur verið með næturopnunina. „Við fáum góð viðbrögð og gott umtal vegna þessara góðu þjónustu, ekki síst samfélagið í Vík. Hér hefur verið gríðarlegur ferðamannastraumur í allt sumar og mikil verslun en 97% af okkar viðskiptavinum eru erlendir ferðamenn,“ segir Örn.

Hann er með 40 starfsmenn í vinnu í sumar en þeim mun fækka 15. ágúst þegar skólafólkið lætur af störfum og þann sama dag hættir næturopnunin.

Fyrri greinAndri Hrafn í FH
Næsta greinÁfram aukning í sölu