Allt svart í Landeyjahöfn

Mannvirkin í Landeyjahöfn eru eins og í draugabæ eftir sand- og öskufokið í síðustu viku. Tvö skip vinna nú við dýpkun í höfninni sem hefur verið lokuð frá því í nóvember.

Herjólfur hefur þannig ekki siglt í Landeyjahöfn í nærri fjóra mánuði, frá því ferjan rak skrúfuna í hafnargarðinn í lok nóvember.

Dýpkunarskipin Perla og Sóley voru við vinnu í Landeyjahöfn í dag en Dísa, sem áður hét Skandia, gat lítið unnið í dag vegna bilunar og er verið að gera við skipið í Vestmannaeyjum.

Aðstæður til dýpkunar eru góðar í dag en ekki er þó búist við að Herjólfur nái að nýta sér höfnina í þessari viku.

Fyrri greinFékk skilorðsbundinn dóm fyrir innbrot
Næsta greinLán hreppsins lækkaði um 22,5 milljónir