Allt stopp vegna skipulagsferlis

Hverfisráð Eyrarbakka er orðið þreytt á seinagangi við lagningu nýs göngustígs milli Eyrarbakka og Stokkseyrar. Fyrsta skóflustungan að stígnum var tekin í september 2012.

Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Árborgar, sagði í samtali við Sunnlenska að í upphafi hafi nokkrar ábendingar borist við legu stígsins, meðal annars frá Minjastofnun.

„Það leiddi til þess að legu stígsins var hnikað til frá því sem gert var ráð fyrir í upphaflegri skipulagslýsingu. Vonandi fellur sú leið, sem er í þeirri tillögu sem nú er auglýst, vel í kramið þannig að ekki verði frekari tafir á verkefninu,“ segir Ásta og bæti við að hún skilji vel óþolinmæði hverfisráðsins.

„En það er ekki heimilt lögum samkvæt að gefa framkvæmdaleyfi fyrr en skipulagsmálin eru í höfn. Í fjárhagsáætlun þessa árs er gert ráð fyrir fjármagni til að klára að leggja endanlegan malarstíg á milli þorpanna. Síðan þarf að malbika til að fá full not af stígnum. Sá kafli sem þegar er kominn, malarstígur og göngubrú, er mikið notaður og ég spái að svo verði einnig um stíginn í heild,“ segir Ásta ennfremur.

Fyrri greinSelfyssingar sópuðu að sér verðlaunum
Næsta greinSogsbrú lokuð fram að hádegi