Allt í góðu á hálendinu

Lögreglan á Hvolsvelli fór um hálendið fyrr í vikunni, m.a. um Landmannalaugar og Veiðivötn. Töluverður fjöldi ökumanna var stöðvaður og kannaði lögregla ástand þeirra og einnig ökutækjanna.

Skemmst er frá því að segja að ástand ökumanna og ökutækja var mjög svo vel viðunandi.

Þessu eftirliti verður áframhaldið og er það stefna embættisins að efla hálendiseftirlit í samræmi við aukinn fjölda ferðamanna á svæðinu.

Gott samstarf er á milli hálendisvaktar Landsbjargar og lögreglunnar en hópur björgunarfólks gerir út frá Landmannalaugum og Nýjadal.

Þá var lögreglan við hraðaeftirlit í gær, meðal annars við Hlíðarveginn á Hvolsvelli, þar sem einn ökumaður var stöðvaður fyrir of hraðan akstur.

Nokkuð hefur verið kvartað til lögreglunnar vegna hraðaksturs í gegnum Hvolsvöll og mun lögreglan skoða þau mál í framhaldinu og verða með radarmælingar innan byggðarinnar.

Fyrri greinTveir bikarar komnir í hús hjá Skarphéðni
Næsta greinÞórir kynnti leiðina á toppinn