„Allt annars eðlis en fólk á að kynnast inni í kirkjunum“

Sr. Dagur Fannar Magnússon mun leiða helgistund í Sundhöll Selfoss nk. fimmtudagskvöld. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Fimmtudagskvöldið 21. desember kl. 19:30 verður haldin aðventu helgistund í gömlu innilauginni í Sundhöll Selfoss.

Séra Dagur Fannar Magnússon, héraðsprestur í Suðurprófastsdæmi, mun sjá um að leiða helgistundina og feðginin Ronja Lena Hafsteinsdóttir og Hafsteinn Viktorsson munu sjá um tónlistina.

„Ég hef í gegnum tíðina verið mikið fyrir það að fara í sund og hef trúað því að sundlaugarferð sé allra meina bót. Síðan er það mjög sterkur samfélagslegur þáttur að fara í sund og heitan pott eins og hefur nú sést, sundlaugar þjóna óbeint hlutverki félagsmiðstöðva fyrir fólk á öllum aldri,“ segir Dagur í samtali við sunnlenska.is.

„Vatn er auðvitað heilandi og gott og hefur mjög sterk tengsl við trúarbrögð heimsins, þar á meðal kristnina. Bæði þekkjum við skírnina og svo er náttúrulega eitt af helstu táknum kristninnar fiskurinn, sem getur ekki án vatnsins verið. Minn áhugi hefur einnig legið í kyrrðarstarfi og mystík. Þarna er náttúrulega kjörið tækifæri til þess að sameina alla þessa þætti og koma með helgihaldið til fólksins, frekar en að ætlast til þess að fólkið komi í kirkjuna, en það dylst engum að virkilega hefur dregið úr kirkjusókn. Enda þótt kirkjurnar séu helgaðar fyrir þessa þjónustu er ekki neitt sem mælir á móti því að helgihald eigi sér stað utan kirkjunnar heldur þvert á móti.“

Nýsköpun í helgihaldi nauðsynleg
Dagur er fullur tilhlökkunar fyrir fimmtudagskvöldinu en óhætt er að segja að messa með þessum hætti hafi ekki tíðkast hér á landi áður. „Ég er mjög spenntur fyrir því að prófa nýja hluti og ég tel að nýsköpun í helgihaldi sé nauðsynleg til þess að auðga andlegt líf fólks og hugmyndin sprettur í raun frá þessu. Ég veit ekki til þess að messað hafi verið ofan í sundlaug áður, mögulega einhvern tímann eða einhvers staðar á sundlaugarbakkanum en aldrei ofan í sundi með þessu formi.“

„Markmið helgistundarinnar er margþætt. Til dæmis að fólk finni kyrrð og ró, nái aðeins að staldra við í ys hversdagsins, sérstaklega á aðventunni. En einnig að fólk sem hefur áhuga á eða hefur hafið andlega vegferð fái upplifun, nái að horfa inn á við í djúp sálar sinnar og fái merkingabæra og táknræna athöfn til þess að hreinsa huga, sál og líkama.“

Óskírðir geta tekið skírn
Sundlaugarmessan er með óhefðbundnu sniði enda á óhefðbundum stað en í messunni verður fólki boðið upp á að láta skíra sig í innilauginni – sem verður þá búið að blessa.

„Þar sem skírnin er ein og algjör þá erum við ekki að fara að endurskíra fólk heldur er þetta skírnarminning, því flest höfum við tekið barnaskírn. En ef einhver vill taka skírn þarna sem er óskírður, er það sjálfsagt. Athöfnin er opin öllum en hún er náttúrulega allt annars eðlis heldur en fólk á að kynnast inni í kirkjunum svo einhverjum gæti þótt hún skrítin, en ég mæli alveg með þessu sérstaklega fyrir fólk sem hefur áhuga á og stundar andlega iðkun. Það verður mjög rólegt og kyrrt andrúmsloft.“

Ljúf og góð stund
Dagur segir að allir sem hann hafi rætt við séu jákvæðir og spenntir fyrir sundlaugarmessunni. „Ég veit ekki betur en að þetta veki jákvæðan áhuga hjá flestum, yngra fólki og eldra. Það þarf enga skráningu heldur er þetta bara spurning um að mæta í laugina, við mælum með því að þau sem sjá fyrir sér að hanga eitthvað á bakkanum komi með föt sem þau geta smeygt sér í yfir sundfötin og jafnvel yoga dýnu til að liggja á.“

„Ég mæli einnig með að fólk mæti strax kl. 19:00, til þess að hlusta á Ronju syngja fyrir okkur og koma sér aðeins í gírinn. Annars bið ég fólk bara að koma með opin hug og hjarta, vera búið að reyna að sjá aðeins fyrir sér hvað það vill fá út úr þessu, tilbúið til þess að geta tekið við því sem birtist því. Ég held að þetta verði ljúf og góð stund.“

Feðginin Hafsteinn og Ronja munu sjá um tónlistina í sundlaugarmessunni. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Frábær jól framundan
Sem fyrr segir munu feðginin Ronja og Hafsteinn aðstoða Dag með messuna og ljá athöfninni töfra með tónlist sinni en Hafsteinn mun meðal annars sjá um tónheilun með því að spila á gong.

„Mig langar bara að segja hvað ég er þakklátur fyrir það að feðginin Ronja og Hafsteinn skuli vilja vera hluti af því teymi sem framkvæmir helgistundina og einnig Elís Kjartansyni sem ætlar að spila á bassa. Að auki er ég afar þakklátur starfsfólki sundlaugarinnar og menningardeild Árborg fyrir að styðja þetta verkefni.“

„Að lokum langar mig endilega að segja frá því að á aðfangadagskvöld verður svo hálftíma helgistund í fjárhúsinu á Efra-Apavatni klukkan kl. 23:30, þar sem nýsköpun í helgihaldi verður einnig í hávegum höfð. Stundin er hugsuð til þess að virkilega snerta við innsta hjartans hörpustreng. Það er gert til þess að virkilega geta sett sig í spor þeirra Maríu og Jósefs og hugmyndin er sú að fólk upplifi. Þau Sigríður Jónsdóttir, Magnús Kjartan Eyjólfsson og fjölskylda standa þétt á bakvið það verkefni og þeim er ég líka mjög þakklátur. Ég veit að þetta verða frábær jól, full af ást, kærleika og ljósi og að við munum muna eftir og hugsa til systkina okkar út um víða veröld,“ segir Dagur að lokum.

Fyrri greinGert ráð fyrir jákvæðum rekstri í Rangárþingi eystra
Næsta greinMunaðarlaus sex ára gömul