Allt að 100 flóttamenn til Árborgar á næsta ári

Nichole Leigh Mosty, Guðmundur Ingi Guðbrandsson og Fjóla Steindóra Kristinsdóttir við undirritunina á Selfossi. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, Fjóla Steindóra Kristinsdóttir, bæjarstjóri Sveitarfélagsins Árborgar og Nichole Leigh Mosty, forstöðukona Fjölmenningarseturs, undirrituðu í dag samning um samræmda móttöku flóttafólks í Árborg.

Samningurinn var undirritaður á Selfossi og kveður á um að sveitarfélagið taki, í samstarfi við stjórnvöld, á móti allt að 100 flóttamönnum fram til 31. desember 2023.

„Mót­taka flótta­fólks í Sveitarfélaginu Árborg hefur gengið afar vel en með undirritun samnings við ríkið vill sveitarfélagið tryggja farsæla móttöku og aðlögun flóttafólks og barna. Það er ánægjuefni að samningurinn sé í höfn en hann mun stuðla að sam­felldri og jafnri þjón­ustu en það er mikilvægt að flóttafólk fái jöfn tækifæri til virkr­ar þátt­töku í sam­fé­lag­inu sem fyrst,“ segir Fjóla St. Kristinsdóttir, bæjarstjóri.

Árborg hefur síðastliðin ár verið móttökusveitarfélag fyrir flóttafólk og meðal annars tekið á móti flóttamönnum sem stjórnvöld hafa boðið til landsins, auk þess að vera þátttakendur í tilraunaverkefni um samræmda móttöku flóttafólks sem hófst árið 2021. Flóttafólk sem sest hefur að í Árborg hefur komið frá Afganistan, Íran, Sýrlandi, Úkraínu og Venesúela.

Samræmd móttaka flóttafólks nær til fólks sem fengið hefur alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða hér á landi. Lögð er áhersla á nauðsynlega aðstoð til að vinna úr áföllum og að fólk fái tækifæri til virkrar þátttöku í samfélaginu, svo sem með atvinnu, samfélagsfræðslu og námi, þar með talið íslenskunámi.

Fyrri greinÞorsteinn Daníel aftur í Árborg
Næsta greinGullna hringborðið sett á laggirnar