Allt á floti í Þórsmörk

Á milli 120 og 130 manns eru tepptir í Þórsmörk og Básum en þar er allt á floti eftir mikla rigningu frá því í nótt.

Klemenz Geir Klemenzson, skálavörður í Húsadal, segir að mikið hafi rignt þar síðan í nótt og ekkert lát sé á rigningunni í dag. „Steinholtsáin er orðin ófær og Krossá er mjög erfið yfirferðar. Hópurinn sem er hérna hjá mér fór niður að Krossá í morgun og sú sjón dugði til að sannfæra þá um að vera ekkert að fara lengra,“ segir Klemenz en bætir við að vel fari um alla gesti.

„Já, það væsir samt ekki um nokkurn mann hérna,“ segir Klemenz og bætir við að fólk vonist til að komast heimleiðis síðdegis á morgun. Samkvæmt veðurspá ætti að stytta upp í kvöld.

Fyrri greinBjargað af eyri í Núpsvötnum
Næsta grein„Mig langaði að prufa að synda“