„Allt að verða klárt“

„Undirbúningur fyrir 17. júní hátíðarhöldin á Selfossi ganga vel og er allt að verða klárt,“ segir Kolbrún Lilja Guðnadóttir, verkefnisstjóri hjá Sonus, sem sér um dagskrána á Selfossi í fyrsta skipti í ár.

„Hátíðardagskráin verður í föstum skorðum, skrúðganga frá kirkjunni, virðuleg og skemmtileg dagskrá á hátíðarsviði í Sigtúnsgarðinum, opið hús hjá viðbragðsaðilum í björgunarmiðstöðinni, kökukaffi hjá Frjálsíþróttadeildinni og auðvitað fleira. Einnig bjóðum við uppá nýja dagsrkárliði og þar má til dæmis nefna úti morgunjóga, alvöru grillpartý og tónleika með Daða Frey í Hellisskógi og svo sláum við upp balli í Sigtúnsgarðinum með hljómsveitinni “Made in Sveitin” og þá er hægt að dansa fram á nótt,“ bætir Kolbrún Lilja við.

„Okkur langaði til þess að víkka dagskrána aðeins og í ljósi þess að 17. júní ber upp á laugardag þetta árið getum við flækt hlutina örlítið. Því hefur verið ákveðið að bjóða uppá tónleika/uppistand föstudagskvöldið 16. júní, með Stebba Jak og Andra Ívars en þeir eru einnig þekktir undir nafninu “Föstudagslögin” og þar verður engin aðgangseyrir. Einnig verða margir aðrir spennandi viðburðir í boði og við höfum lagt áherslu á að reyna að ná til allra aldurshópa. Við finnum fyrir smá pressu að gera vel,“ segir Kolbrún og hlær og bætir við að hún voni sannarlega að allir finni eitthvað við sitt hæfi á þessum stórmerkilega degi.

Í Sigtúnsgarðinum verður markaður í hátíðartjaldinu og vert er að nefna að ennþá eru laus pláss á markaðinu. Ef einhver hefur áhuga á þvi að vera með og kynna vörur sínar eða þjónustu er um að gera að senda línu á kolbrunlilja@sonus.is.