Allt að gerast í Þorlákshöfn

Það er mál manna að mikil hátíðarstemning hafi ríkt í Þorlákshöfn í lok síðustu viku. Upptaktinn átti Lúðrasveit Þorlákshafnar sem hélt "burtfarartónleika" á fimmtudagskvöldinu.

Tilefni tónleikanna var að Róbert Darling hefur ákveðið að stíga til hliðar, hætta að stjórna sveitinni en gerast óbreyttur lúðrasveitarmeðlimur. Nú stendur yfir leit að nýjum stjórnanda en það var mikill kraftur í lúðrasveitinni og skemmtilegri tónleikar sem boðið var upp á í íþróttahúsinu í Þorlákshöfn.

Sautjándi júní hófst síðan með miklum hátíðarbrag þar sem nýtt skilti var afhjúpað við víkingaskip Erlings Ævarrs Jónssonar á útsýnisstað nálægt vitanum. Fjölmenni mætti á athöfnina og hjálpuðust bæjarstjóri og menningarfulltrúi að við að afhjúpa skiltið og klippa á borða við listaverkið.

Hápunktur hátíðahaldanna var síðan í endurbættum skrúðgarðinum þar sem hefðbundin dagskrá varð stærri og hátíðlegri með vígslu á svonefndu “Kvenfélagstorgi”. Edda Laufey Pálsdóttir var fjallkona en hún er einnig ein þeirra öflugu kvenfélagskvenna sem af dugnaði og vinnusemi bjuggu til skrúðgarð í miðjum bæ sem fæstir áttu von á að hægt væri að rækta líkt og raunin hefur þó orðið. Barbara Guðnadóttir, menningarfulltrúi flutti hátíðarræðu, Ásta Margrét Grétarsdóttir, formaður kvenfélagsins greindi frá vinnunni í garðinum í gegnum árin, Hlín Sverrisdóttir, landslagsarkitekt sagði frá þeim breytingum sem unnar hafa verið og hældi sérstaklega verktakanum Þorsteini Hannibalssyni, framkvæmdastjóra Garps og hans mönnum fyrir góð störf. Í lokin klipptu fjallkonan og bæjarstjóri saman á borðann við kvenfélagstorgið.