Allt að gerast á Flúðum um helgina

Það verður mikið um að vera á Flúðum um verslunarmannhelgina eins og alltaf. Ferðaþjónustufólk og listamenn halda utan um dagskrána ásamt Ferða- og menningarnefnd Hrunamannahrepps.

Dagskrá helgarinnar hefst á Útlaganum á fimmtudagskvöld þar sem hljómsveitin Goldies kemur fólki í stuð fyrir helgina. Á föstudags- og sunnudagskvöld spilar Á móti sól á Útlaganum en á laugardagskvöldið skemmta Bjartmar Guðlaugsson og Bergrisarnir ásamt rokksveitinni Keflavík.

Á laugardaginn verður bílasýningin Kaggar í sveit í reiðhöllinni frá 13-18 og kl. 13:30 verður Fögrusteinatraktorstorfæran í gamla farvegi Litlu-Laxár. Um kvöldið er varðeldur og skemmtilegheit í Torfdalnum.

Hin árlega furðubátakeppni verður í Litlu-Laxá á sunnudaginn kl. 13 og sama dag verður opið mót í strandblaki. Um kvöldið verður helgistund í Hrunakirkju, söngkvöld í Snússu og tónleikar í félagsheimilinu.

Alla helgina verður stemmning í Bragganum í Birtingaholti, galleríinu Leikur og List í Laugarlandi og Bændamarkaðurinn á Flúðum er opinn frá 11-18 alla dagana.

Sundlaugin á Flúðum er opin alla helgina, krakkarnir geta skemmt sér í hoppuköstulum og tívolístemmningu í Torfdal og kylfingar komast í golf á Ásatúnsvelli en á laugardeginum er mót á vellinum.

Í hreppnum eru margir góðir veitingastaðir, Hótel Flúðir, Minilik, Kaffi-Sel, Kaffi Grund og Pizzavagninn.

Fleiri atriðið gætu dottið inná dagskránna og verður hún stöðugt í uppfærslu. Nánari upplýsingar eru hér.