Allt að fyllast hjá Hellismönnum

Mikil ásókn er í gistingu við Landmannahelli að fjallabaki en þar reka Hellismenn ehf. ferðaþjónustu.

Að sögn Engilberts Olgeirssonar, sem sér um bókanir í Landmannahelli, er nánast upppantað í alla skálagistingu í sumar. “Þetta er óvenjumikið núna. Það er ein vika laus í byrjun júlí, annars eru júlí og ágúst upppantaðir,” sagði Engilbert í samtali við sunnlenska.is.

Svefnpokagisting er í átta húsum á svæðinu fyrir samtals 92 gesti. Stærstu skálarnir eru 18 og 24 manna. Að sögn Engilberts fer stærstur hluti bókananna fram í gegnum erlendar ferðaskrifstofur. “Annars er allur gangur á því, það er einnig mikið af Íslendingum sem sækja í gistingu hjá okkur. Þar er m.a. um að ræða veiðimenn, hópa í hestaferðum og göngufólk.”

Engilbert segir að sömuleiðis hafi mikið verið bókað í fyrrasumar en í kjölfar eldgosanna í Eyjafjallajökli hafi 1.150 gistinætur verið afbókaðar. “Það rættist reyndar mikið úr því þegar leið á sumarið þannig að síðasta sumar var ekki alslæmt,” segir Engilbert.

Ferðaþjónustan í Landmannahelli er opin frá 10. júní fram í september. Þar er einnig svæði fyrir tjöld, fellihýsi og húsbíla, útigrill og veiðileyfasala í fjölmörg vötn á svæðinu.