Alls óvíst um endurbyggingu Eden

Það fer eftir tilboði VÍS, tryggingafélags Sparisjóðsins á Suðurlandi, um greiðslu bóta hver framtíð Eden í Hveragerði er.

Sem stendur er það Vátryggingafélag Íslands sem fer með forræði húsarústanna, en Sparisjóðurinn er eigandi hússins og leigði rekstraraðilum það undanfarin ár.

Að sögn Péturs Hjaltasonar, forstöðumanns Sparisjóðsins á Suðurlandi, hefur óneitanlega verið ákveðinn þrýstingur frá samfélaginu, ekki síst í fjölmiðlaumræðu, á að nýtt hús verði reist en hann telur mjög ólíklegt að sjóðurinn standi fyrir slíkri uppbyggingu.

„Ef hins vegar verktakar eða fjársterkir aðilar hafa áhuga á að byggja þarna upp flotta þjónustumiðstöð fyrir ferðamenn, þá erum við til viðræðna um slíkt,“ sagði Pétur í samtali við Sunnlenska.

Þess eru dæmi að tryggingafélög borgi tryggingabætur eftir tjón án þess að húsnæði sé endurbyggt en brunabótamat Eden er 280 milljónir króna. Í öðrum tilvikum hefur ekki fengist bætt fyrir hús nema ný komi í staðinn.

Pétur segir að viðræður um bætur milli sjóðsins og tryggingafélagsins eigi eftir að fara fram og óvíst er um slíka niðurstöðu. Ákvörðun um endurbyggingu verði tekin í framhaldinu.

Fyrri greinElfar Guðni gefur málverk í Sólbakka-lottó
Næsta greinÞjálfarinn hrósar Guðmundi Árna