Alls 35 sunnlensk fyrirtæki á lista yfir framúrskarandi fyrirtæki

Selfoss. sunnlenska.is/Egill Bjarnason

Creditinfo hefur birt lista yfir Framúrskarandi fyrirtæki fyrir rekstrarárið 2019. Þetta er í ellefta sinn sem Creditinfo veitir Framúrskarandi fyrirtækjum viðurkenningu en í ár eru 842 fyrirtæki á listanum eða um 2% allra virkra fyrirtækja á Íslandi. 

Framúrskarandi fyrirtækjum fækkar lítillega á milli ára en í fyrra voru 887 fyrirtæki á listanum. Að mati sérfræðinga hjá Creditinfo gæti fækkunin á listanum bent til þess að einhver kólnun í íslensku atvinnulífi hafi átt sér stað óháð COVID-19. Það sem einkennir listann í ár er að byggingarfyrirtækjum fjölgar líkt og í fyrra og eru nú orðin 115 talsins. Ferðaþjónustufyrirtækjum fer fækkandi eða frá 80 fyrirtækjum í fyrra niður í 64 í ár.

Í ár eru 35 sunnlensk fyrirtæki á lista Creditinfo í ár og ber þar fyrst að nefna að í flokki stórra fyrirtækja eru Þjótandi í Rangárþingi ytra, JÁVERK á Selfossi og Hafnarnes VER í Þorlákshöfn ofarlega á blaði. Önnur stór fyrirtæki sem komast á listann eru Set á Selfossi, Hótel Geysir í Bláskógabyggð, E.Guðmundsson í Vík og Eldisstöðin Ísþór í Þorlákshöfn.

Í flokki meðalstórra fyrirtækja komust á listann Fossvélar, TRS, Ræktunarsamband Flóa og Skeiða, Pípulagnir Helga og Vélsmiðja Suðurlands, öll á Selfossi, Vörðuland í Sandvíkurhreppi, Landstólpi og Nesey í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, Geysir, Gufuhlíð og Friðheimar í Bláskógabyggð, Jarðefnaiðnaður í Þorlákshöfn, Eldhestar í Ölfusi, Gröfutækni á Flúðum, Southcoast Adventure, G. Sigvaldason og Lambhagabúið í Rangárþingi ytra, Hellishólar í Rangárþingi eystra, Undanfari í Vík og Bær og Systrakaffi á Kirkjubæjarklaustri.

Í flokki lítilla fyrirtækja eru á listanum Stóra-Ármót á Selfossi, Netpartar í Sandvíkurhreppi, Örkin Veitingar í Hveragerði, Humar og Skel á Stokkseyri, RafSuð í Vík og Hlíðarból á Kirkjubæjarklaustri.

Til að teljast til Framúrskarandi fyrirtækja þurfa fyrirtæki að uppfylla ströng skilyrði um stöðugan rekstur þrjú ár aftur í tímann. Skilyrðin hafa fram að þessu öll verið fjárhagsleg en frá og með næsta ári verður sú nýbreytni á að sjálfbærni verður kynnt inn sem skilyrði þess að fyrirtæki komist á lista Framúrskarandi fyrirtækja.