Allir velkomnir sem vilja dást að gömlum bílum

Mynd úr safni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Landsmót Fornbílaklúbbs Íslands verður haldið á Hvolsvelli um næstu helgi. Þetta er í fyrsta sinn sem mótið er haldið á Hvolsvelli.

Fornbílaeigendur munu koma sér fyrir á tjaldsvæðinu og á svæðinu norðan við Hlíðarenda. Að sögn Bjarna Þorgilssonar, formanns Fornbílaklúbbs Íslands, er dagskráin afar einföld þetta árið, þar sem menn vildu ekki skipuleggja stífa dagskrá sem mögulega þyrfti svo að slá af með litlum fyrirvara.

„Það má búast við því að þarna verði góður slatti af gömlum bílum samankomnir á flötunum á laugardeginum. Þetta á bara að vera afslappaður góður dagur í góðra vina hópi með gamla bíla í forgrunni og að sjálfsögðu eru allir velkomnir sem vilja dást að bílunum okkar,“ segir Bjarni og bætir við að fyrirtæki á Hvolsvelli séu að leggja lokahönd á tilboð á veitingum, þannig að það er allt til reiðu til að fá sér bíltúr og skoða gamla bíla í góða veðrinu á laugardag. 

„Við vonum að þetta verði góð prufukeyrsla á þessu svæði með framtíðarlandsmót í huga.“

Fyrri greinFóru á uppblásinni sundlaug út á vatnið
Næsta greinÞórsarar lentu á vegg