Allir rómuðu kartöflusúpuna

Um 300 manns sóttu hina árlegu Kartöflusúpuhátíð sem haldin var í Þykkvabænum um síðustu helgi.

Allir gestirnir rómuðu súpuna en á föstudagskvöldinu var mikið fjör og skemmtileg kvöldvaka sem sr. Guðbjörg Arnardóttir stjórnaði og skemmti af sinni alkunnu snilld.

Þar sungu Gestur Ágústsson Suður-Nýjabæ, Berglind Gylfadóttir Húnakoiti og Glódís Margrét Guðmundsdóttir Brekku lék á píanó. Einnig sungu verðandi fermingarstúlkur, Árný Gestsdóttir Suður-Nýjabæ og Bjarnveig Björk Birkisdóttir Brekku og tíu ára systir Bjarnveigar, Bergrún Anna, við undirleik Glódísar.

Á sunnudag var opnuð listaveisla og kaffihús sem verður einnig opin næsta sunnudag frá kl. 14-17. Þar sýna Gunnhildur Þórunn Jónsdóttir og Sigrún Jónsdóttir málverk, ljósmyndir frá RAX eru til sýnis og gamlar mannlífsmyndir sem Guðni í Sunnu tók árið 1954 í Þykkvabæ.