„Allir í sólskinsskapi“

Bríet og Aron Can í hita leiksins í félagsheimilinu á Flúðum. Ljósmynd/Aðsend

Föstudagurinn á fjölskyldu- og bæjarhátíðinni Flúðir um versló fór í alla staði einstaklega vel fram að sögn Bessa Theodórssonar, framkvæmdastjóra hátíðarinnar.

„Fyrir hádegi voru margir hátíðargestir komnir á staðinn og stöðugur straumur lá inn í bæinn. Umferðin gekk vel fyrir sig og allir voru í hinu mesta sólskinsskapi, enda lék veðrið við hvern sinn fingur. Seinnipart dags var mikið mannlíf á Flúðum. Veitingastaðir, verslanir og gróðrastöðvar voru víðast hvar iðandi af lífi,“ segir Bessi.

Dagskráin hófst á tónleikum með Pálma Gunnarssyni sem lék öll sín bestu lög fyrir fullu félagsheimili. Að þeim loknum tóku við vinsælusta tónlistarfólk landsins á hörku balli. Aron Can, Hildur og Bríet kláruðu orku dansþyrstra gesta þegar komið var fram undir morgun.

„Hér er öflug gæsla og viðbragsaðilar, lögregla og aðrir sjálfboðaliðar höfðu í fá horn að líta þetta kvöldið og vonandi verður helgin öll í sama dúr,“ bætir Bessi við.

Fjölbreytt dagskrá verður á Flúðum í allan dag og klukkan þrjú verður svo hápunkturinn þegar hin vinsæla Vélfangs traktoratorfæra fer fram í Torfdal. Þar etja kappi eldri dráttarvélar af öllum tegundum, brautin í ánni er mikið drullu fen og verður fróðlegt að sjá keppendur takast á við verkefnið. Einnig verður til sýnis á staðnum stærsta dráttarvél landsins.

Í kvöld verða svo tónleikar með Eyþóri Inga og um miðnættið hefst ærlegt sveitaball með hljómsveitinni Made in sveitin.

Fyrri greinSviptur eftir akstur á 176 km/klst hraða
Næsta greinEva María með mótsmet og þrjú ný HSK-met