„Allir í bíó um páskana“

Páskarnir eru mikil kvikmyndahátíð og Selfossbíó frumsýndi tvær stórar myndir í vikunni auk þess að sýna þrjár aðrar myndir til viðbótar, þannig að allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi í bíóinu.

„Það fara allir í bíó um páskana, enda eru margar spennandi myndir í sýningu núna. Til dæmis teiknimyndin Loksins heim sem margir hafa beðið spenntir eftir og sömu sögu má segja um Fast & the Furious 7, sem var frumsýnd í gær,“ sagði Axel Ingi Viðarsson, bíóstjóri á Selfossi, í samtali við sunnlenska.is.

„Svo erum við líka með íslensku myndina Fúsa, sem er algjör snilldarmynd, fjölskyldumyndina Cinderella og nýju Will Ferrell myndina, Get Hard,“ þannig að þarna er eitthvað fyrir alla, segir Axel, og bætir við að bíóið verði opið alla daga yfir páskahelgina.

„Það eru líka spennandi myndir frumsýndar á næstunni, Run All Night með Liam Neeson verður frumsýnd í byrjun apríl og seinna í mánuðinum er von á nýju Avengers-myndinni – og svo er allt sumarið eftir með hverri stórmyndinni á fætur annarri,“ sagði Axel að lokum.

Fyrri greinHættulega stutt upp í háspennulínur
Næsta greinVill fimm stór sveitarfélög