Allir framboðslistar í Suðurkjördæmi gildir – einstaklingsframboðin ógild

Yfirkjörstjórn í Suðurkjördæmi úrskurðaði í gær öll ellefu framboðin í kjördæminu gild og afgreiddi þau til Landskjörstjórnar eins og lög gera ráð fyrir.

Fjögur einstaklingsframboð voru úrskurðuð ógild og er sú ákvörðun kæranleg til Landskjörstjórnar. Þeir einstaklingar sem hyggja á framboð í Suðurkjördæmi eru Sturla Jónsson, Benedikt Stefánsson, Ragnar M. Einarsson og Arngrímur F. Pálmason.

Á ruv.is kemur fram að formenn yfirkjörstjórna segja ekkert í stjórnarskrá eða kosningalögum opna fyrir möguleika á einstaklingsframboði og því verði að úrskurða framboðin ógild. Þetta sætta fjórmenningarnir sig ekki við og segir einn þeirra, Sturla Jónsson, að niðurstaðan verði kærð.

Karl Gauti Hjaltason, sýslumaður í Vestmannaeyjum og formaður yfirkjörstjórnar í Suðurkjördæmi, segir á ruv.is að gott samstarf hafi náðst við öll framboð um skil á framboðslistum og undirskriftum meðmælenda. Aðstandendur framboða hafi byrjað að skila inn listum á mánudag og þriðjudag og því hafi snemma gefist færi á að benda fólki á hafi úrbóta verið þörf. Þannig hafi framboðin fengið tækifæri til að bæta úr því sem kunni að vanta upp á áður en framboðsfrestur rann út. Því hafi verið hægt að staðfesta alla ellefu framboðslistana á fundi yfirkjörstjórnar í hádeginu í dag.

Framboðin ellefu sem bjóða fram í Suðurkjördæmi eru A-listi Bjartrar framtíðar, B-listi Framsóknarflokksins, D-listi Sjálfstæðisflokksins, G-listi Hægri grænna, I-listi Flokks heimilanna, J-listi Regnbogans, L-listi Lýðræðisvaktarinnar, S-listi Samfylkingarinnar, T-listi Dögunar, V-listi Vinstri grænna og Þ-listi Pírata.

UPPFÆRT 14.04.13 KL. 14:14

Fyrri greinSandfok á Suðurlandi
Næsta greinFyrsti sigur Stokkseyringa