Orkan hefur fengið alþjóðlega ISO umhverfisvottun á rekstri allra þjónustustöðva sinna um allt land og er það í fyrsta sinn sem eldsneytisfyrirtæki hlýtur slíka vottun fyrir allar þjónustustöðvar sínar.
Vottunin staðfestir að Orkan starfar samkvæmt viðurkenndu umhverfisstjórnunarkerfi sem uppfyllir strangar kröfur um ábyrgð, eftirlit og stöðugar umbætur í umhverfismálum.
Um er að ræða umhverfisvottun ISO 14001 sem er veitt af British Standard Institution. ISO 14001 er einn mikilvægasti alþjóðlegi staðallinn á sviði umhverfisstjórnunar og byggir á því að fyrirtæki geti sýnt fram á í verki að það fylgi öllum lögum og reglugerðum sem tengjast starfseminni, greini og stýri umhverfisáhrifum og hafi virkt innra eftirlit.
Vottunin staðfestir markvisst eftirlit sem haft er með rekstri þjónustustöðva Orkunnar , reglulegar mælingar og skráningar sem staðfesta að rekstur stöðvanna sé í samræmi við kröfur, skýrar væntingar til birgja og verktaka og öfluga Orkuvakt sem tryggir að stöðvarnar séu snyrtilegar og að viðhaldi sé sinnt kerfisbundið um allt land.

„Þessi vottun er viðurkenning fyrir þá vinnu sem unnin hefur verið innan Orkunnar til að gera umhverfismál að órjúfanlegum hluta af daglegum rekstri. Hún staðfestir þá vegferð sem við höfum verið á og við munum nýta hana áfram til góðra verka í nánu samstarfi við viðskiptavini og samfélagið.“ segir Auður Daníelsdóttir, forstjóri Orkunnar.
Orkan hefur ásett sér að vera leiðandi í umhverfismálum á orkumarkaði. Vottunin er hluti af þeirri vegferð og undirstrikar skuldbindingu Orkunnar gagnvart viðskiptavinum, samfélaginu og umhverfinu.

