„Allar bjargir sem í boði eru nýttar“

„Við hófum leitina með um 40 manns þegar útkallið barst fyrir klukkan þrjú í nótt og sá fjöldi leitaði fram í birtingu en núna eru um 120 manns við leit. Þetta eru björgunarsveitir úr Árnessýslu og Rangárvallasýslu og af höfuðborgarsvæðinu,“ sagði Tryggvi Hjörtur Oddsson, formaður Björgunarfélags Árborgar, í samtali við sunnlenska.is.

Víðtæk leit hefur staðið yfir frá því í nótt að manni sem talinn er hafa fallið í ána í nótt. Mannsins hafði verið saknað en bíll hans fannst nálægt Selfosskirkju í nótt.

Tryggvi segir að allar bjargir sem í boði eru séu nýttar. Við erum með hunda, sérhæfða straumvatnsbjörgunarmenn, björgunarsveitarmenn, báta, dróna, þyrlu… bara allt sem er í boði,“ segir Tryggvi og bætir við að aðstæður séu ágætar til leitar.

„Veðurfarslega eru aðstæður ágætar en það er mjög takmarkað hægt að sigla á ánni vegna ísingar. Við erum með mjög fært fólk hérna í sveitinni okkar á Selfossi sem við hleypum út í á og þau sigla eins og þau treysta sér til.“

Í nótt var leitað frá Óseyrarbrú og upp að Selfoss en nú er leitarsvæðið á um tíu kílómetra kafla, frá Ölfusárbrú niðurfyrir Kaldaðarnes, beggja vegna árinnar.

„Við munum færa okkur neðar ef vísbendingar gefa tilefni til þess. Við erum með gínu úti í ánni núna sem við notum til þess að átta okkur betur á rekhraðanum og aðstæðum,“ segir Tryggvi en leitað verður af fullum þunga fram í myrkur.

„Við drögum svo úr í nótt og verðum með einhverja sjónpósta á ánni til þess að fylgjast með. Að öllu óbreyttu munum við svo setja fullan þunga í leitina aftur í birtingu á morgun.“

Fyrri greinLeitað að manni við Ölfusá
Næsta greinIngibjörg Erla taekwondokona ársins