Álkerfi hyggst hefja starfsemi á Eyrarbakka

Eyrarbakki. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Bæjarráð Sveitarfélagsins Árborgar hefur veitt fyrirtækinu Álkerfi ehf vilyrði fyrir atvinnulóð á Eyrarbakka. Fyrirtækið stefnir á uppbyggingu á næstu mánuðum þegar formlegri úthlutun er lokið.

Vilyrðið nær til atvinnulóðarinnarinnar Hafnarbrúnar 1, sem er vestast í þorpinu. Álkerfi sérhæfir sig í ál- og glerlausnum fyrir stærri byggingarverktaka og einstaklinga, meðal annars svalalokunum og fleira.

Formlegri úthlutun fer fram á næstu vikum og í framhaldinu geta framkvæmdir hafist þegar hönnun og teikningar liggja fyrir.

„Það er ánægjulegt að uppbygging atvinnustarfsemi í sveitarfélaginu haldi áfram af krafti. Fjöldi verkefna er í farvegi og virkilega spennandi að atvinnulóðir á Eyrarbakka séu að komast í uppbyggingu á næstu mánuðum,“ sagði Bragi Bjarnason, bæjarstjóri Árborgar, af þessu tilefni.

Fyrri greinStjarnan sneri leiknum við í lokin
Næsta greinTími til kominn