Alhvít jörð við Frostastaðavatn

Gríðarmikið haglél féll á Landmannaafrétti í gærkvöldi og eins og sjá má á meðfylgjandi mynd var alhvít jörð við Frostastaðavatn.

Frostastaðavatn er í 572 metra hæð yfir sjávarmáli, rétt norðan við Landmannalaugar.

„Um kvöldmatarleytið í gærkvöldi fór að rigna á svæðinu og í kjölfarið féll haglél með gríðarstórum höglum,“ sagði Dagrún Ingvarsdóttir í samtali við sunnlenska.is en jörðin varð alhvít á skammri stundu.

Að sögn Dagrúnar er mikið af hjólandi ferðamönnum á svæðinu og áttu þeir líklega ekki von á svona sviptingum í veðrinu en í fyrradag og fram eftir degi í gær var blíðviðri á svæðinu og mokveiði í Frostastaðavatni.

Í dag, laugardag, gerir Veðurstofan ráð fyrir hægri breytileg átt eða hafgolu á Suðurlandi. Víða skúrir. Hiti 10 til 15 stig að deginum. Á miðhálendinu má búast við skúrum eða éljum, einkum síðdegis. Hitastigið á hálendinu verður 5 til 10 stig að deginum, en 0 til 4 í nótt.

Fyrri greinLay Low á Sólheimum
Næsta greinNý ferja smíðuð í Noregi