Alheimsráðstefna um fjöltrúarlegar aðgerðir sett í Skálholti á morgun

Skálholt. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Alheimsráðstefnan Faith for Nature – Multi-Faith Action/ Trú fyrir jörðina – Fjöltrúarlegar aðgerðir, hefst í Skálholti þann 5. október og stendur yfir til 8. október.

Ráðstefnan fer nánast að öllu leyti fram í netstreymi og fjarfundum til að draga úr umhverfisspori, bregðast við COVID-veirufaraldinum og gera breiðari hóp mögulegt að taka þátt. Hægt er að fylgjast með dagskrá ráðstefnunnar og alþjóðlegum útsendingum hér á vefnum.

Á fimmta hundrað einstaklingar frá 58 löndum hafa skráð sig til þátttöku í ráðstefnunni. Á meðal þeirra eru shamanar frá Kanada og Grænlandi; biskupar af Norðurlöndunum og frá Norður- Ameríku, Bosníu Hersegóvínu, Filipseyjum, Vatíkaninu, Kenía; leiðtogar pygmía frá Austur-Kongó og frumbyggja í Amazon-skóginum; imam frá Nígeríu og íslamskir fræðimenn frá Katar; kennari frá sjálfbærnisþorpi í Indlandi og prófessorar úr Evrópu og frá Bandaríkjunum.

Ráðstefnan hefur það markmið að sameina ólíkar trúarstofnanir, lífskoðunarfélög og trúarbrögð um heim allan til aðgerða sem tryggt geta heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna framgang. Stofnun bandalags um trú í þágu jarðar innan vébanda Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna verður meðal umfjöllunarefna á ráðstefnunni.

Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna hefur lýst viðburðinum sem sögulegum, enda munu leiðtogar og fulltrúar helstu trúarbragða heims taka virkan þátt í honum.

Fyrri greinBitlausir Selfyssingar fóru tómhentir heim
Næsta greinMisstu niður sjö marka forskot á lokakaflanum