Álfrún Diljá dúxaði í FSu

Álfrún Diljá Kristínardóttir ásamt Sigursveini Sigurðssyni aðstoðarskólameistara og Olgu Lísu Garðarsdóttur skólameistara. Ljósmynd/FSu

Í gær brautskráðust 62 nemendur frá Fjölbrautaskóla Suðurlands, flestir þeirra úr bóknámi til stúdentsprófs. Dúx skólans er Selfyssingurinn Álfrún Diljá Kristínardóttir.

Álfrún Diljá, sem er aðeins 17 ára gömul, útskrifaðist af opinni námslínu og við athöfnina fékk hún viðurkenningar fyrir góðan árangur í þýsku, íþróttum og íþróttafræðum og auk þess hlaut hún námsstyrk frá Hollvarðasamtökum FSu en að baki þeim stendur öflugur hópur velunnara skólans. Um Álfrúnu fullyrti Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, formaður skólanefndar FSu, að út frá lýsingum kennara sé hún „með smitandi jákvæðan kraft, leiðtogaefni sem nær árangri í öllu því sem hún tekur sér fyrir hendur.”

Fleiri nemendur voru verðlaunaðir við athöfnina: Heiðar Snær Bjarnason fékk viðurkenningu fyrir mjög góðan árangur í ensku, Þórdís Bjarklind Gunnarsdóttir fyrir mjög góðan árangur í spænsku, Íris Birgisdóttir fyrir framúrskarandi árangur í félagsgreinum, Hallgerður Höskuldsdóttir fyrir framúrskarandi árangur í stærðfræði, Anna Aðalheiður Arnardóttir fyrir frábæran árangur í verklegri og bóklegri hjúkrun og Ernir Vignisson og Magnús Már Magnússon fengu viðurkenningu fyrir mjög góðan árangur í rafvirkjagreinum.

Sem fyrr segir brautskráðust 62 nemendur í gær, flestir stúdentarnir úr bóknámi 26 talsins, 12 eftir starfsnám og 11 af rafvirkjabraut, þar af 8 úr kvöldskóla. Átta nemendur luku námi af sjúkraliðabraut, tveir af vélvirkjabraut, tveir af listalínu og einn af húsasmíðabraut. Fimm nemendur luku námi af tveimur brautum.

Fjörutíu ára stúdentar skólans settu svip sinn á samkomuna með því að fjölmenna og fagna þessum tímamótum. Sigþrúður Harðardóttir núverandi kennari skólans flutti fróðlegt erindi fyrir þeirra hönd og lýsti námsaðstæðum nemenda þegar ekkert var skólahúsnæðið og nemendur hlupu á milli húsa bæjarins í leit að þekkingu. Enda var skólinn í þá daga kallaður Hlaupabrautin.

Þegar kennsla hófst í haust voru skráðir nemendur við skólann 1.210 talsins, þar af voru nemendur í dagskóla 965 talsins. Alls voru 137 nemendur voru skráðir á sex námsbrautir í garðyrkju og tengdum greinum að Reykjum og í fangelsunum var 61 nemandi skráður.

Fyrri greinGjörningur og listamannaspjall á lokadegi sýningar
Næsta greinTeitur Örn til liðs við Gummersbach