Álfheimar, FSu og BÁ vinna saman

Börnin í leikskólanum Álfheimum á Selfossi fara í skógarferðir einu sinni í viku. Fyrir skömmu unnu þau skemmtilegt verkefni í samstarfi við FSu og BÁ.

Þau dvelja í skóginum við leik og störf en undanfarnar vikur hafa börnin verið að rífa niður sólpall sem kominn var til ára sinna í skóginum.

Verkið gekk mjög vel og þegar búið var að rífa allar fjalirnar af og aðeins staurarnir og undirstöðurnar voru eftir var kallað eftir aðstoð vaskra drengja frá starfsbraut Fjölbrautarskóla Suðurlands. Þeir brugðust vel við og komu í skóginn vel byrgðir af verkfærum og gengu rösklega til verks undir handleiðslu Svans Ingvarssonar.

Þegar búið var að naglhreinsa og hirða þær spýtur sem voru heilar fluttu börnin allt timbrið í kerru út að brennustæðinu á tjaldsvæðinu og úr varð ágætis bálköstur. Snorri Baldursson frá Brunavörnum Árnessýslu kom síðan og aðstoðaði við að tendra bálið ásamt því að fræða börnin um brunavarnir.

Á heimasíðu Árborgar kemur fram að þessi samvera og samvinna milli skólastiga og Brunavarna Árnessýslu hafi verið mjög ánægjuleg og var það glaður hópur sem kvaddist að loknu verki.

Frétt á heimasíðu Árborgar