Álfheimar fengu Grænfánann í áttunda sinn

Grænfánanum flaggað við Álfheima í sumar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Leikskólinn Álfheimar á Selfossi fékk Grænfánann afhentan í áttunda sinn fyrr í mánuðinum og á því Íslandsmetið í fjölda Grænfána, ásamt leikskólanum Norðurbergi í Hafnarfirði.

Engir leikskólar hafa fengið Grænfánann afhentan oftar en Álfheimar og Norðurberg. Landvernd veitir Grænfánann skólum fyrir góða frammistöðu í sjálfbærni- og umhverfismálum.

Á Álfheimum hefur verið lögð sérstök rækt við útikennslu auk þess sem skólinn hefur staðið sig vel í því að takmarka þann úrgang sem fer frá skólanum með endurnotkun, endurvinnslu og moltugerð. Reyndar eru Álfheimar í fararbroddi á landsvísu hvað varðar moltugerð og útikennslu.

Verkefnið Skólar á grænni grein veitir skólum Grænfánann, en það er alþjóðlegt verkefni sem er rekið af Landvernd hér á landi.

Það var mikið um dýrðir á Álfheimum þegar Katrín Magnúsdóttir frá Landvernd kom færandi hendi með áttunda fánann. Nemendurnir tóku vel á móti henni, meðal annars með mögnuðum söng um umhverfisvernd og síðan var fáninn dreginn að húni við skólann.


Krakkarnir á Álfheimum sungu magnaðan umhverfissöng fyrir gesti sína. sunnlenska.is/Guðmundur Karl


Katrín Magnúsdóttir fékk góða hjálp við að draga fánann að húni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Fyrri greinHugarfar og dugnaður!
Næsta greinKona örmagnaðist í hlíðum Ingólfsfjalls