Alexandra ráðin skólastjóri tónskólans í Vík

Alexandra Chernyshova. Ljósmynd/Sigurbjörn Daði Dagbjartsson

Alexandra Chernyshova, óperusöngkona, tónskáld og kennari hefur verið ráðin skólastjóri tónskólans í Vík í Mýrdal. Hún mun taka við starfinu í byrjun júlí.

Alexandra á langan feril í kennslu og hefur m.a. starfað sem skólastjóri eigin söngskóla, söngkennari og kennt í grunnskóla. Hún hefur auk þess samið og sett upp eigin óperur, haldið fjölmarga tónleika, stýrt kórum og tónlistarhátíðum. Alexandra lauk M.Mus gráðu frá Listaháskóla Íslands, M.Ed. gráðu frá Háskólanum í Kiev, meistaragráðu í óperusöng og söngkennaraprófi frá Odessa tónlistarakademíunni og B.ED gráðu frá National Kiev Linguistic University. Þá útskrifaðist Alexandra jafnframt nýverið með MA gráðu í menningarstjórnun frá Háskólanum á Bifröst.

Alexandra tekur við starfinu af Brian R. Haroldssyni sem hefur starfað sem skólastjóri tónskólans frá árinu 2015. Í frétt frá Mýrdalshreppi er Alexandre boðin velkomin til starfa og Brian færðar þakkir fyrir sín störf í þágu tónlistar og menningar í sveitarfélaginu og óskað velfarnaðar í þeim verkefnum sem taka við.

Fyrri greinAllt í blóma í Hveragerði um helgina
Næsta greinUngt fólk frá Árborg heimsótti Finnland