„Aldrei upplifað svona kolsvartamyrkur“

Soffía Gunnarsdóttir, bóndi í Jórvík í Álftaveri, segir ótrúlegt að upplifa öskufallið. „Það er eiginlega ekki hægt að lýsa þessu, myrkrið er svo svart.“

Nokkuð hefur dregið úr öskufalli í Álftaveri í dag en vindátt breyttist þar um hádegi. „Við vorum úti klukkan tvö í nótt og þá var öskufallið ekki byrjað. Síðan fórum við aftur út um fimmleytið í morgun og það var algjör hryllingur. Það var svo mikið svartamyrkur að við mæðgurnar þurftum að leiðast í fjárhúsið sem er hérna 100 metra frá,“ sagði Soffía í samtali við sunnlenska.is en Jórvík er í 65 km fjarlægð frá eldstöðinni í beinni loftlínu.

„Það ætlaði aldrei að birta til í morgun og ég hef aldrei upplifað svona kolsvartamyrkur. Það var ekki verandi úti í þessu. Um 11 leytið í morgun breytti í suðvestan og þá fór að sjá smá dagsbirtu. Núna er farið að blotna aðeins í þessu og þá verður þetta hart eins og steypa. Askan er eins og fínt hveiti, svart og grátt,“ segir Soffía ennfremur.

Fyrri greinFimleikastelpurnar bíða í Keflavík
Næsta greinRýming strax vegna jökulhlaups