Aldrei skilið af hverju Vatnajökull er með lögheimili í Garðabæ

Jökulsárlón. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Formlegt aðsetur og lögheimili Vatnajökulsþjóðgarðs verður flutt til Hafnar í Hornafirði næsta haust. Frá þessu greindi Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra á ríkisstjórnarfundi í gærmorgun. Ákvörðun um flutning aðseturs á landsbyggðina var tekin var í samráði við stjórn þjóðgarðsins og verður kynnt á næstunni á Alþingi.

Meginstarfsstöðvar Vatnajökulsþjóðgarðs eru staðsettar á Höfn í Hornafirði, Kirkjubæjarklaustri, Skriðuklaustri, í Ásbyrgi, Mývatnssveit og Skaftafelli. Lögheimili þjóðgarðsins hefur verið í Garðabæ og hafa framkvæmdastjóri, fjármálastjóri og þrír aðrir starfsmenn miðlægrar skrifstofu haft starfsstöð þar.

Með flutningnum er gert ráð fyrir að starfsstöðin á Höfn verði efld þar sem framkvæmdastjóri mun hafa þar aðalstarfsstöð.

Framkvæmdastjóraskipti í september
Magnús Guðmundsson núverandi framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs mun 1. september nk. flytjast í starf sérfræðings í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu. Mun hann m.a. vinna með starfshópi sem vinna mun stöðuskýrslu um þjóðgarða og friðlýst svæði á Íslandi, auk þess að taka þátt í verkefnum á sviði styrkingar og einföldunar á stofnanakerfi ráðuneytisins.

Í dag er lögheimili Vatnajökulsþjóðgarðs í Garðabæ og Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, segir að því þurfi að breyta.

„Vatnajökull er ekki á höfuðborgarsvæðinu og ég hef aldrei skilið hvers vegna lögheimili þjóðgarðsins er á höfuðborgarsvæðinu. Nú þegar ég er í aðstöðu til breyta þessu þá geri ég það og flyt með því mikilvæg störf á landsbyggðina. Styrking starfsstöðva stofnana ráðuneytisins á landsbyggðinni verður að sama skapi eitt af lykilatriðunum í þeirri vinnu sem fram undan er varðandi styrkingu og einföldun stofnanaskipulags ráðuneytisins,“ segir Guðlaugur Þór.

Hjá Vatnajökulsþjóðgarði starfa 37 fastir starfsmenn og eru 32 þeirra á starfsstöðvum á landsbyggðinni. Á sumrin bætast við um 80 starfsmenn sem sinna landvörslu, þjónustu og fræðslu til gesta þjóðgarðsins og eru þau störf öll unnin á landsbyggðinni.

Fyrri greinHamar fékk skell í bikarnum
Næsta greinLandeldi og Benchmark Genetics framlengja samstarf