„Aldrei planið að fara út í verslunarrekstur“

Guðmundur og Auður í versluninni með synina Eystein og Elvar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Verslunin Gvendarkjör opnaði á Kirkjubæjarklaustri um síðustu helgi. Guðmundur Vignir Steinsson og Auður Eyþórsdóttir reka verslunina en þau reka einnig Systrakaffi og Skaftárskála.

„Við erum búin að fá gríðarlega flottar móttökur og heimafólk er ánægt með að vera komið með verslun á staðinn aftur. Hér hefur ekki verið verslun síðan Krónan lokaði í byrjun árs. Í millitíðinni opnuðum við lítið Gvendarhorn í Skaftárskála en það var aldrei planið hjá okkur að fara sjálf út í verslunarrekstur. Manni vantar nokkra klukkutíma í sólarhringinn til þess,“ sagði Guðmundur léttur í samtali við sunnlenska.is.

Þau Auður eiga húsið og buðu mörgum rekstraraðilum að leigja það undir verslun án árangurs og því var niðurstaðan að þau myndu sjálf opna Gvendarkjör.

„Við töluðum við allar þessar keðjur en áhuginn var lítill sem enginn. Við vildum hins vegar alls ekki fara inn í sumarið með enga matvöruverslun á svæðinu, litla Gvendarhornið hefur alveg gert sitt í vetur, en myndi aldrei anna sumartraffík,“ bætir Guðmundur við.

Í Gvendarkjörum fást allar helstu nauðsynjar, vöruúrvalið er ekki mikið minna en var í Kjarval, þó að lagerinn sé minni.

„Verslunin verður opin í sumar og eitthvað fram á haust, en væntanlega munum við loka henni yfir háveturinn og vera þá með litla Gvendarhornið í skálanum. En þetta fer vel af stað, það er búin að vera ótrúlega mikil traffík af erlendum ferðamönnum hérna, við erum eiginlega steinhissa á því hvað það eru margir komnir á svæðið. Íslendingarnir eru hins vegar ennþá að bíða eftir góða veðrinu,“ sagði Guðmundur að lokum.

Opnunartími verslunarinnar til að byrja með verður frá 10 til 18 alla virka daga og 10 til 16 um helgar.

sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinAFLÝST – Verðlaunasirkus mætir á Eyrarbakka
Næsta greinAnnar risasigur Uppsveita