„Aldrei nóg af náttúrubörnum“

Sigurður Sigursveinsson og Bjarni bóksali fræða í Jónsmessugöngu Landverndar 2020 að Alviðru. Ljósmynd/Aðsend

Alviðra, fræðslusetur Landverndar, stendur í sumar fyrir metnaðarfullri og áhugaverðri sumardagskrá fyrir gesti og gangandi. Dagskráin felur í sér stutt fræðsluerindi og hóflega göngu.

„Sumardagskráin byggir fyrst og fremst á fræðslu og útiveru – að upplifa dásemdir náttúrunnar í blómaskrúði og birkibreiðum undir Ingólfsfjalli og við Sogið, þar sem fuglalíf er svo fjölbreytt og skemmtilegt. Við hugum líka sérstaklega að lífríkinu í vatninu, jurtaríkinu, jarðfræði og hvernig nýta má jurtir til matar, litunar og heilsubótar. Tengingin við söguna skiptir líka máli. Saga Ingólfs, fyrsta landnámsmannsins sem valdi sér búsetu undir fjallinu sem við hann er kennt,“ segir Tryggvi Felixson, formaður Landverndar, í samtali við sunnlenska.is.

Jónsmessuganga í kvöld
„Í kvöld, fimmtudaginn 24. júní kl. 19:30, er hefðbundin Jónsmessuganga þar sem hugað verður að náttúru svæðisins og sögum sem tengjast fjallinu fagra. Næstkomandi laugardag kl. 14:00 mætir Rannveig Thoroddsen plöntuvistfræðingur og fjallar um jurtaríkið á svæðinu. Svo tökum við pásu þar til í ágúst er fjallað verður sérstaklega um jarðfræðina og hvernig nýta má ætihvönn til matar, litunar og heilsubóta. Við ráðgerum einnig gönguferð upp á sjálft Ingólfsfjallið. Nánari lýsing á hverjum viðburði er á vefsíðu og Facebook síðu Landverndar.“

Tryggvi segir að ein nýjung sé í starfsemi Alviðru en það eru grenndargarðar. „Það verkefni er unnið í samstarfi við Auði I. Ottesen, ritstjóra tímaritsins Sumarhúsið og garðurinn. Þar hefur á annan tug fjölskyldna komið sér fyrir og hafið ræktun matjurta og er að myndast þar lítið ræktunarsamfélag, sem við vonum að eigi eftir að vaxa og dafna.“

Spáð í spilin yfir kakó og kleinum í fræðslusetri Landverndar í Alviðru við Jónsmessugöngu 2020. Ljósmynd/Aðsend

Tengja saman fólk og náttúru
Að sögn Tryggva er Alviðra fyrst og fremst náttúruskóli fyrir nemendur en skólarnir nýta sér aðstöðuna og náttúruna til fræðslu og útiveru. „Á sumrin breytum við til og bjóðum upp á fræðslu fyrir almenning. Undanfarinn áratug hefur starfsemin verið í lágmarki af ýmsum ástæðum en nú höfum við spýtt í lófana og sett hana af stað á ný.“

„Það er bæði þakklát og afar skemmtilegt verkefni að stuðla að því að tengja saman fólk og náttúru – að fræða og kenna gestunum að njóta. Það er aldrei nóg af náttúrubörnum, sama hver aldurinn er. Til að sinna starfseminni af metnaði réðum við Hjördísi Ásgeirsdóttur síðastliðið vor til að sjá um Alviðru. Viðtökurnar hafa verið afar góðar og við vonum að blómlegt starf sé framundan,“ segir Tryggvi.

Mikilvægt að muna eftir flugnanetinu
Sem fyrr segir verður Jónsmessuganga í kvöld. „Við göngum frá bæjarhlaðinu á Alviðru upp í hlíðar Ingólfsfjalls. Þar lítum við yfir landið og finnum helstu kennileiti, skoðum gróður og jarðminjar. Þá eru sögur af Ingólfi landnámsmanni hluti af ferðinni. Við göngum svo norður með fjallinu og fylgjum þjóðveginum til baka. Í bænum verður svo boðið upp á kakó og kleinur að göngu lokinni og málin rædd. Gangan tekur um eina og hálfa klukkustund. Gott að muna eftir að hafa flugnanet í vasanum.“

„Í plöntuskoðuninni á laugardaginn er ætlunin að fara niður í Þrastarskóg og beina athyglinni að góðurfarinu þar, greina plöntur og fjalla um hvernig þær velja sér búsvæði. Að lokinni göngu verður farið upp í bæ þar sem eru víðsjár og smásjár til að skoða betur allt þetta smáa sem fæstir taka eftir í dagsins önn. Við förum líka yfir helstu atriði í grasafræðinni, allt á léttum nótum og aðgengilegt. Að sjálfsögðu verður líka boðið upp á kakó og kleinur. Og svo minni ég aftur á flugnanetið,“ segir Tryggvi.

Alviðra. Ljósmynd/Aðsend

Víðtækt fræðslustarf
„Landvernd er félagasamtök með tæplega 6.000 félaga sem er annt um verndun íslenskrar náttúru og umhverfis. Mikilvægur hluti af þeirri baráttu er að auka skilning og þekkingu almennings á náttúrunni og umhverfi landsins. Í þeim tilgangi stendur Landvernd að mjög víðtæku fræðslustarfi; verkefnum eins og Skólar á grænni grein, Ungir umhverfisfréttamenn, Vistheimt með skólum, ferðum á svæði í hættu og opnum fundum.“

„Starfsemin í Alviðru er einn liður í fræðslustarfi Landverndar, og beinist fyrst og fremst að því veita skólunum tækifæri til að koma með nemendur í aðstæður þar sem náttúran sjálf er kennslustofan. En fræðsludagskrá fyrir almenning verður vonandi vaxandi þáttur í starfseminni. Alviðra er komin í samstarf við Náttúruminjasafn Íslands til að efla þennan þátt í starfseminni. Ef þetta gengur vel í sumar reikna ég með að dagskráin geti orðið umfangsmeiri á næstu árum,“ segir Tryggvi.

Konur almennt áhugasamari
Aðspurður fyrir hverja sumarviðburðirnir eru segir Tryggvi að þegar skólar starfa er Alviðra fyrst og fremst fyrir börnin. „En þessa fræðsludaga á sumrin er hún fyrir allar fjölskylduna. Almennt má segja að konur séu áhugasamari en karlar, en að sjálfsögðu eru allir hjartanlega velkomnir.“

„Alviðra og jörðin Öndverðarnes II, sem er handan við Sogið, eru eign Landverndar og Árnesinga. Vegna staðsetningarinnar er starfsemin sérstaklega aðgengileg fyrir Árnesinga en fólk kemur víðar að, bæði af höfuðborgarsvæðinu og annars staðar. Í vor komu liðlega 300 skólabörn úr Árnessýslu í Alviðru og við eigum von á enn fleiri þegar skólarnir byrja aftur eftir sumarleyfin,“ segir Tryggvi.

Umhverfisvitund fólks fer vaxandi
„Við hjá Landvernd finnum að vitund og skilningur á umhverfisvernd fer almennt vaxandi. Þannig hefur félögum í Landvernd fjölgað mjög mikið undanfarin ár og þeir hafa átt drýgstan þátt í því að styrkja fjárhagslegan grundvöll samtakanna. Við sjáum einnig að mörg fyrirtæki sinna umhverfismálum betur en áður, þó „grænþvottur“ sé enn of útbreiddur. Stjórnvöld hafa heldur bætt ráð sitt, þó mikið vanti upp á að löggjöfin og eftirfylgni við hana sé nægjanlega góð.“

„En viðfangsefnin í umhverfismálum eru flókin og margsháttar hagsmunir í húfi sem gera baráttuna fyrir verndun náttúru og umhverfisins flókna. Landvernd er málsvari náttúrunnar, sem ekki ver sig sjálf, og auðvitað finnum við að ekki eru allir sammála einstökum málum sem við berjumst fyrir. Viðburðir eins og boðið er upp á í Alviðru eru þess vegna tilvalið tækifæri til að hittast og ræða málin í bróðerni þó skoðanir séu skiptar,“ segir Tryggvi að lokum.

Fyrri greinFjölbreytt verkefni fá styrk úr Kvískerjasjóði
Næsta greinFjórir stöðvaðir við fíkniefnaakstur