Aldrei meiri tími í útköll en í fyrra

Aðalfundur Björgunarfélags Árborgar var haldinn í síðustu viku í Björgunarmiðstöðinni á Selfossi. Tryggvi Hjörtur Oddsson var kjörinn nýr formaður sveitarinnar.

Formaður flutti árskýrslu sína og ársreikningar félagsins samþykktir. Þá fluttu formenn flokka skýrslu um starfið á liðnu starfsári. Athygli vakti mikil fjölgun tíma við útköll miðað við undanfarin ár og eyddu félagsmenn okkar rúmlega 2.000 vinnustundum í útköll á síðasta ári og hafa þær aldrei verið fleiri.

Kosið var til stjórnar og urðu talsverðar breytingar þar sem Inga Birna Pálsdóttir gaf ekki kost á sér áfram sem formaður en hún hefur starfað sem formaður sl. 4 ár. Tryggvi Hjörtur gaf einn kost á sér til formanns og var kosin einróma. Tveir voru í framboði til varaformanns og var Björgvin Óli Ingvarsson kosinn. Guðjón Þór Emilsson gaf áfram kost á sér sem gjaldkeri og var kosinn einróma. Kosið var um meðstjórnendur og varamenn og fór kosningin þannig að meðstjórnendur eru Inga Birna, fráfarandi formaður og Ragnar Hólm Gíslason sem kemur nýr inn í stjórn. Varamenn voru kosin Þórunn Ásta Helgadóttir og Árni Páll Jóhannesson sem einnig kemur nýr inn í stjórn.

Fyrri greinViðar skoraði sigurmarkið
Næsta greinVigtarhúsið fékk heiðursviðurkenningu hönnuða