Alls tók 81 fyrirtæki af Suðurlandi þátt í Mannamótum, kynningarviðburði ferðaþjónustunnar, sem haldinn var í Kórnum í Kópavogi í síðustu viku.

Í ár tók um 270 fyrirtæki þátt frá öllu landinu, sem er metþátttaka og aldrei hafa fleiri sunnlensk fyrirtæki tekið þátt, 81 talsins. 800 gestir mættu á sýninguna sem er einnig met í komu gesta.

„Það er augljóst að Mannamót hefur fest sig í sessi á meðal stærstu viðburða innan ferðaþjónustunnar, en viðburðurinn hefur stækkað ár frá ári,“ segir Guðmundur Fannar Vigfússon, verkefnisstjóri hjá Markaðsstofu Suðurlands. Stefnt er að því að halda Mannamót 2020 þann 16. janúar.

Mannamót voru nú haldin í fyrsta skipti í Kórnum og segir Fannar að mikil ánægja hafi verið með nýju staðsetninguna og mun betra aðgengi og pláss var fyrir sýnendur og gesti.

Myndir frá Mannamótum má finna hér.