Aldrei fleiri nýnemar í FSu

Fjölbrautaskóli Suðurlands. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Aldrei hafa fleiri nýnemar hafið nám við Fjölbrautaskóla Suðurlands eins og á komandi haustönn. Nemendur í dagskóla verða 941 og þar af eru nýnemar 269 talsins.

Sigursveinn Sigurðsson, aðstoðarskólameistari, segir að það ríki alltaf spenna og eftirvænting í upphafi hvers skólaárs og allt sé nú að smella saman í undirbúningi skólastarfsins. Kennarar munu mæta til starfa á mánudaginn og nýnemadagurinn verður miðvikudaginn 17. ágúst. Kennsla hefst síðan fimmtudaginn 18. ágúst.

Nýnemum hefur fjölgað síðustu ár, en nýnemahópurinn fyrir ári síðan var sá fjölmennasti sem þá hafði sést, þangað til núna. Sigursveinn segir að skýringarnar geti verið nokkrar.

„Við höldum að það sé nú fyrst og fremst þessi mikla fólksfjölgun á upptökusvæði skólans og svo eru alltaf einhverjar sveiflur í árgöngunum. Auk þess eru alltaf einhverjir nemendur sem koma frá öðrum landshlutum vegna hins sérhæfða náms sem skólinn býður upp á,“ sagði Sigursveinn í samtali við sunnlenska.is.

Fyrri greinHraðasta nettenging sem fyrirfinnst á Ísland
Næsta greinSíðasta sýningarhelgin í Lambey