„Aldrei eins mikilvægt að efla andlega hlið ungmenna eins og nú“

Nú í september fer af stað námskeiðið Kátir krakkar sem er sérstaklega hugsað til að styrkja sjálfsmynd þeirra og efla jákvæðar hugsanir.

Námskeiðið verður haldið í Rauðakrosshúsinu á Selfossi, að Eyravegi 23 og er fyrsti tíminn þriðjudaginn 21. september. Námskeiðið er alls tíu skipti og fá foreldrar aðgang að lokuðu svæði með efni og hugmyndum sem hægt er að gera heima milli tíma.

„Námskeiðið Kátir krakkar á vegum Hugarfrelsis hefur verið í boði á Selfossi síðustu fjögur ár. Það var auglýst eftir nýjum kennara til að taka við námskeiðinu og ég fór í viðtal og fékk svo starfið. Ég er uppeldismenntuð og hef mikið verið að vinna með núvitund fyrir börn þannig þetta námskeið passaði vel inn í það sem ég brenn fyrir og hef verið að vinna við,“ segir Hrafnhildur Hlín Hjartardóttir, sem sér um námskeiðið á Selfossi, í samtali við sunnlenska.is

Hrafnhildur lærði leikskólakennarann í Danmörku og tók svo master í uppeldis- og menntunarfræðum með áherslu á áhættuhegðun, forvarnir og lífssýn hér á Íslandi. „Svo hef ég farið á krakkajóganámskeið þar sem við lærðum hvernig er hægt að nota jóga í kennslu sem var mjög áhugavert. Núna er ég svo að fara að læra núvitundarkennarann sem mun eflaust nýtast mér á námskeiðinu Kátir krakkar.“

Ljósmynd/Hugarfrelsi

Börn elska að fara í slökun
„Námskeiðið Kátir krakkar er hannað af Unni og Hrafnhildi hjá Hugarfrelsi og ég er kennari hjá þeim. Ég hef ekki kennt svona námskeið en hef verið að vinna með jóga, hugleiðslu og núvitundaræfingar í leikskólum, bæði í Þorlákshöfn og í leikskólanum Reynisholti í Grafarholti. Það hefur gengið mjög vel, börnin elska að gera jógaæfingar og fara í slökun. Enda er mikilvægt fyrir þau að æfa sig í að fá smá ró inn í hversdagsleikann.“

Hrafnhildur segir að markmið námskeiðsins sé að efla einbeitingu og styrkja sjálfsmynd barnanna. „Að þau skoði og átti sig á hvaða styrkleikum þau búa yfir og að efla jákvæðar hugsanir. Einbeiting barna í nútímasamfélagi fer stöðugt versnandi og það er svo gott fyrir þau að efla hana enda mikilvægt að vera með góða einbeitingu miðað við hraðann í samfélagi.“

Mikilvægt að efla jákvæða sjálfsmynd
„Ég hugsa að allir séu sammála um hversu mikilvæg jákvæð sjálfsmynd er og það er ofboðslega mikilvægt að efla hana og eins að fyrirbyggja að sjálfsmynd barna verði slæm. Það er til dæmis gert með því að skoða hvaða styrkleikum þau búa yfir en mörg börn telja að styrkleikar séu bara að vera góð/ur í fótbolta eða góð/ur að spila á píano en styrkleikar geta líka verið eiginleikar eins og að vera hjálpsamur, lausnamiðaður, fyndin og svo framvegis. Neikvæðar hugsanir hafa mun meiri áhrif á okkur heldur en jákvæðar og því er mikilvægt að efla jákvæðar hugsanir. Það er allt í lagi að gera mistök, það gera allir en svo lærir maður bara af þeim og heldur áfram,“ segir Hrafnhildur.

Námskeiðið er fyrir 7-9 ára og 10-12 ára. Eldri börnin (10-12) eru milli klukkan 16 og 17 og yngri (7-9) frá klukkan 17-18. „Námskeiðið er að mínu mati fyrir öll börn enda er alveg jafn mikilvægt, ef ekki mikilvægara, að efla andlegar hliðar einstaklingar og líkamlegar. Andlega hliðin gleymist allt of oft en nú erum við að sjá kvíðatölur hjá börnum sem aldrei hafa sést áður og mögulega er aldrei eins mikilvægt að efla andlega hlið ungmenna eins og nú. Það ber þó að nefna að námskeiðið er ekki sérstaklega hannað fyrir kvíða barna en getur vissulega haft jákvæð áhrif á líðan.“

Ljósmynd/Hugarfrelsi

Mikilvægt að grípa snemma inn í ef barn er með covid-kvíða
Snemmtæk íhlutun er lykillinn að því að koma í veg fyrir að vandamál, til að mynda kvíði, verði hamlandi. Að grípa inn með viðeigandi inngrip skiptir sköpum. Ef börn eru með covid-kvíða myndi ég mæla með að minnka fréttaáhorf og minnka viðveru á samfélagsmiðlum. Samfélagsmiðlar eru stútfullir af misgóðum upplýsingum og það er mikið fréttakapphlaup finnst mér varðandi covid-fréttir,“ segir Hrafnhildur.

„Það er mikilvægt að vita að kvíði er tilfinning, rétt eins og hver önnur tilfinning og hún er mikilvæg því hún kemur í veg fyrir að við förum okkur að voða. Hins vegar er gott að læra aðferðir til að koma í veg fyrir að kvíðinn verði hamlandi. Djúpöndun og hugleiðsla gera kraftaverk en ef kvíðinn er orðinn mikill er alltaf nauðsynlegt að leita til fagaðila. Þar er hægt að benda á kvíðameðferðastöðina til að mynda. Svo er alltaf hægt að fá tíma hjá sálfræðingum á heilsugæslustöðvum landsins, þótt biðtíminn gæti vissulega verið mikill.“

Hrafnhildur segir að ef barn er með covid-kvíða sé mikilvægt að foreldrar skoði hvernig umhverfi barnsins er heima. „Er alltaf verið að tala um covid og fréttir alltaf í botni þannig að barnið er stöðugt að heyra þá umfjöllun? Ef foreldrar eru með covid-kvíða er nauðsynlegt að þau átti sig á því og leiti sér aðstoðar eða fái einhver tól til að takast á við hann, því þeirra kvíði smitast auðveldlega til barnanna.“

„Kennarar þurfa líka að vera vakandi fyrir einkennum hjá börnunum og grípa strax inn í. Andleg málefni þurfa að vera ofar á dagskránni bæði innan og utan heimilisins, í skólum, íþróttastarfi og annars konar frístundum. Mér finnst við, Íslendingar, enn vera sálfræðinga-hrædd eins og það sé eitthvað verra að fara til sálfræðings en annara lækna. Þeirri hugsun þurfum við að eyða út með öllu sem ég held reyndar að sé að gerast hægt og rólega,“ segir Hrafnhildur.

Ljósmynd/Hugarfrelsi

Vill efla andlega líðan barna
Áhugi Hrafnhildar á núvitund og hugleiðslu kviknaði í mastersnáminu hennar. „Ég skráði mig í núvitundaráfanga hjá Ásdísi Olsen og Ingibjörgu Kaldalóns og það var bara ekki aftur snúið. Ég gerði rannsókn í mastersnáminu á áhrifum núvitundar fyrir börn með hegðunarvanda sem var mjög áhugavert. Ég veit að Hrafnhildur og Unnur hjá Hugarfrelsi hafa verið að fara í leikskóla og grunnskóla með námskeið fyrir starfsfólk. Þar fá starfsmenn þjálfun í aðferðum Hugarfrelsis og læra leiðir til að hægt sé að innleiða Hugarfrelsi inn í starfið. En áhugi minn liggur klárlega í að efla andlega líðan barna.“

„Ég hef unnið í þó nokkrum leikskólum bæði hér á landi og í Danmörku. Leikskólarnir okkar eru mjög góðir. Leikskólar fylgja aðalnámskrá líkt og aðrir skólar. En mér finnst oft á tíðum mesta áherslan vera lögð á stafa- og talnainnlögn sem á að undirbúa þau undir lestur og þess háttar. Að mínu mati á leikskólinn fyrst og fremst að snúast um að byggja góðan grunn með því að efla félagsfærni, samskiptahæfni, samkennd og efla tilfinningagreind barna. Ég er ekki að segja að það eigi ekki að vera stafa- og talnainnlögn en mér finnst aðaláherslurnar stundum fara á rangan stað.“

„Hugarfrelsi er með alls konar námskeið, fyrir börn, unglinga og fullorðna. Eins eru námskeið fyrir starfsmenn skóla til að innleiða þeirra hugmyndafræði inn í starfið sem ég tel afar jákvætt. Ég mæli eindregið með því að skoða heimasíðu Hugarfrelsis, hugarfrelsi.is og sjá hvað þær stöllur bjóða upp á,“ segir Hrafnhildur að lokum.

Fyrri greinSiggi stýrir ungmennabúðunum á Laugarvatni
Næsta greinFramsókn boðar vaxtarstyrki