„Aldrei ánægður með að ná ekki settu marki“

„Við bara snúum bökum saman og unum niðurstöðunni, en auðvitað setti ég markið hærra og náði því ekki. Ég er ekki ánægður með það en það er ekkert við því að segja.“

Þetta sagði Björgvin G. Sigurðsson, 1. þingmaður Suðurlands, í samtali við sunnlenska.is þegar úrslitin í flokksvali Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi voru ljós. Björgvin tapaði 1. sætinu til Oddnýjar Harðardóttur en Oddný hlaut 65% atkvæða í 1. sætið.

„Það var góð þátttaka í flokksvalinu og afgerandi niðurstaða og ég óska Oddnýju til hamingju með þetta, hún er vel að því komin,“ sagði Björgvin.

„Maður er aldrei ánægður með að ná ekki settu marki en hins vegar er þetta afgerandi niðurstaða og listinn ágætur og speglar ágætlega breiddina. Það koma þarna tveir mjög öflugir frambjóðendur inn í þriðja og fjórða sæti.“

Björgvin segir kosningabaráttuna hafa verið hófstillta og málefnalega en hann segist hafa fundið fyrir miklum þunga fyrir því að kona leiddi listann. „En eins og ég segi þá er þetta afgerandi niðurstaða ég óska þeim sem náðu efstu sætunum til hamingju með það.“

Fyrri greinOddný vann yfirburðasigur
Næsta grein„Hissa og ótrúlega ánægð“