Aldís ráðin verkefnastjóri hjá UMFÍ

Aldís Baldursdóttir. Ljósmynd/UMFÍ

„Ég er mjög spennt fyrir því að vera komin til starfa,“ segir Aldís Baldursdóttir, frá Klængsseli í Flóahreppi, sem í vikunni var ráðin í tímabundið starf verkefnastjóra hjá UMFÍ.

Hún mun sjá um gerð alþjóðlegra styrkumsókna, svo sem hjá Erasmus+, ásamt því að vinna við samfélagsmiðla, gerð kynningarefnis og ýmis önnur tilfallandi verkefni í samskiptum við íþrótta- og ungmennafélagshreyfinguna um allt land. Aldís mun jafnframt vinna við viðburði UMFÍ, Unglingalandsmót, Landsmót UMFÍ 50+, ungmennaráðstefnur, útgáfu blaða og tímarita og margt fleira.

Grunnnám Aldísar er í stærðfræðikennslu á unglingastigi í grunnskóla og að auki er hún með meistaragráðu í fjölmiðla- og boðskiptafræðum frá Háskóla Íslands.

Fyrri greinGunnar sigraði Blítt og létt
Næsta greinHörmungarlagið Drive með Cars