Aldís og Ragnar fengu styrk

Stjórn Menningar- og framfarasjóðs Ludvigs Storr úthlutaði í síðustu viku styrkjum til sex einstaklinga og fimm verkefna.

Meðal styrkhafa í ár voru Aldís Sigfúsdóttir ráðgjafarverkfræðingur á Selfossi og Ragnar Sigbjörnsson, prófessor við Rannsóknamiðstöð í jarðskjálftaverkfræði á Selfossi.

Með rannsókn Aldísar og Ragnars, Áhrif jarðskjálfta á niðurgrafnar lagnir – Könnun á skemmdum frárennslislögnum í Hveragerði, er ætlunin að tengja saman upplýsingar um jarðskjálftaskemmdir niðurgrafinna lagna og kennistærðir yfirborðshreyfinga jarðskjálfta.

Rannsóknin er byggð á mælingum yfirborðshreyfinga jarðskjálftans á Suðurlandi 2008 á ýmsum stöðum í Hveragerði og því tjóni sem jarðskjálftinn olli á niðurgröfnum lögnum. Þess er vænst að niðurstöður verkefnisins leiði til aukins öryggis lagnakerfa og þess að jarðskjálftaskemmdir verði sem minnstar í framtíðinni.

Styrkirnir úr sjóðnum námu samtals 20 milljónum króna í ár en sjóðurinn úthlutaði síðast styrkjum árið 2007. Í ár er úthlutunin sérlega vegleg í tilefni aldarafmælis Háskóla Íslands og þrjátíu ára afmælis sjóðsins.

Tilgangur sjóðsins er að stuðla að framförum á sviði jarðefnafræða, byggingariðnaðar og skipasmíða með því að styrkja vísindamenn á sviði jarðefnafræða, verkfræðinga, arkitekta, tæknifræðinga og iðnaðarmenn til framhaldsnáms. Styrkir eru einnig veittir til rannsókna á hagnýtum úrlausnarefnum í þessum greinum.

Menningar- og framfarsjóður Ludvigs Storr var stofnaður árið 1980 af Svövu Storr, seinni konu Ludvigs Storr, og einkadóttur hans frá fyrra hjónabandi, Önnu Dúfu Storr Pitt. Ludvig Storr var með umsvifamikinn rekstur á Íslandi á fystu áratugum síðustu aldar. Þá var hann aðalræðismaður Dana á Íslandi frá árinu 1956 til dauðadags 1979. Meðal áhugamála hans var endurreisn Skálholtsstaðar og eru kirkjugluggar og fleiri listmunir í kirkjunni gjöf frá fjölskyldu hans.

Fyrri greinStórhríð á Mýrdalssandi
Næsta greinSlapp ómeiddur úr veltu