Aldís ekki skírður í höfuðið á bæjarstjóranum

Kjörís í Hveragerði hefur sett tvær nýjar ístegundir á markað en þær komu í verslanir á dögunum. Annars vegar lífræna frostpinnann Aldís og hins vegar saltkaramellulúxus sem er hluti af lúxuslínu fyrirtækisins.

Því hefur verið verið fleygt fram að Aldís hafi verið skírður í höfuðið á Aldísi Hafsteinsdóttur, bæjarstjóra í Hveragerði, einni af Kjöríssystkinunum. Svo er þó ekki, segir Anton Tómasson, gæðastjóri Kjöríss.

„Hugmyndin á bakvið Aldís er einfaldlega sú að það er aldinkjöt í ísnum. Nafnið er ekki frá okkur komið heldur frá auglýsingastofunni Brandenburg,“ segir Anton í samtali við Sunnlenska.

Aldís Hafsteinsdóttir segir að hún hafi ekki verið neitt rosalega ánægð með nafnið á ísnum til þess að byrja með. „En þetta venst. Mér var ekki sagt frá þessu fyrr en búið var að prenta umbúðirnar og plakatið. Ef ég hefði vitað af þessu fyrirfram þá hefði ég örugglega látið stoppa þetta og þá hefðu systkini mín hlustað á mig. Við höfum oft grínast með að auðvitað ætti að vera til ís sem heitir Aldís. Og nú er brandarinn orðinn að veruleika,“ segir Aldís og hlær.

Hún bætir við að henni finnist nafnið sniðugt, “sérstaklega þar sem ísinn er svo góður.“

Fyrri greinSlökkvitækjaæfing í Írafossstöð
Næsta greinNaflahlaupið á laugardag