Aldarafmæli varnargarða við Markarfljót

Í gær var haldið upp á 100 ára afmæli varnargarðanna við Markarfljót. Ný upplýsingaskilti voru afhjúpuð og haldin hátíð í Heimalandi.

Í Heimalandi var einnig opnuð sögusýning um varnargarðana og áhrif þeirra á mannlífið í Rangárvallasýslu.

Hinn 6. maí 1910 hófst vinna við Seljalandsgarðinn, fyrsta varnargarðinn við Markarfljót, á vegum ungmennafélagsins Drífanda og fleiri. Landgræðsla ríkisins í samstarfi við Vegagerðina, Rangárþing eystra, Búnaðarsamband Suðurlands, Ungmennafélag Íslands og Ungmennafélagið Trausta minntust þessa upphafs landvarna í gær.

Markarfljót var óhemja sem átti til að streyma vestur með Fljótshlíð og í farveg Þverár sem varð þá að stórfljóti og braust yfir í Þjórsá. Þá varð Þykkvibærinn eyland og allar samgöngur sveitanna erfiðar og hættulegar. Fljótið leitaði líka í austur til Vestur-Eyjafjalla með útrás í Holtsósi. Íbúarnir á þessu 60 km breiða belti voru berskjaldaðir fyrir ágangi fljótsins og máttu þola þungar búsifjar vegna þess.

Á aðalfundi Ungmennafélagsins Drífanda í janúar 1910 var samþykkt tillaga um að það beitti sér fyrir fyrirhleðslu Markarfljóts í sjálfboðavinnu. Upphafsmaður tillögunnar var Vigfús Bergsteinsson bóndi á Brúnum og hlaut hún mikinn hljómgrunn meðal félagsmanna.

Félagið lofaði 100 dagsverkum til varnargarðsins sem 25 félagsmenn þess skiptu með sér, konur jafnt sem karlar. Öðrum 600 dagsverkum var jafnað niður á heimili sveitarinnar með forgöngu félagsins. Allir bændur byggðarlagsins utan tveir lögðu fram allt að 25 dagsverk. Búnaðarfélag Íslands og ríkissjóður hlupu undir bagga og greiddu rúmlega helming kostnaðarins, en hreppsbúar og jarðeigendur afganginn.

Verkið hófst hinn 6. maí vorið 1910 og þann 9. júlí var garðurinn orðinn 700 metra langur. Hann stendur enn í dag.

Fyrri greinSiglt frá Landeyjahöfn 21. júlí
Næsta greinSigurjón Valgeir: Siglingar á Ölfusá