Aldan hlaut Íslensku hljóðvistarverðlaunin

(F.v.) Helgi Gunnarsson formaður VFÍ, Páll V. Bjarnason arkitekt, Anton Kári sveitarstjóri, Ólöf Pálsdóttir arkitekt, Kristín Ómarsdóttir formaður ÍSHLJÓÐS og Sólbjört leikskólastjóri. Ljósmynd/RE

Leikskólinn Aldan á Hvolsvelli hlaut Íslensku hljóðvistarverðlaunin 2025 en verðlaunin voru veitt í síðustu viku. Þau eru samstarfsverkefni Verkfræðingafélags Íslands og ÍSHLJÓÐS.

Þetta er í annað sinn sem þessi verðlaun eru veitt en dómnefnd veitti leikskólanum viðurkenninguna fyrir framúrskarandi hljóðvist. Þau Sólbjört S. Gestsdóttir, leikskólastjóri og Anton Kári Halldórsson, sveitarstjóri, veittu verðlaununum viðtöku fyrir hönd Rangárþings eystra.

Góð hljóðvist verður ekki til af sjálfu sér og liggur mikil vinna fagfólks að baki hönnun skólans. Kristín Ómarsdóttir, verkfræðingur og hljóðráðgjafi, og EFLA sáu um hljóðhönnun byggingarinnar. Sverrir Þór Viðarsson var innanhússarkitekt verkefnisins og húsið var hannað af P Ark teiknistofu, þeim Páli V. Bjarnasyni og Ólöfu Pálsdóttur arkitektum.

Við afhendinguna flutti Helgi Gunnarsson, formaður VFÍ, ávarp þar sem hann kom inn á mikilvægi þess að huga vel að hljóðumhverfinu. Hann lagði áherslu á að góð hljóðvist væri ekki munaður heldur grunnþáttur í heilbrigðu og manneskjulegu umhverfi. Með vandaðri hljóðhönnun í nýbyggingu Öldunnar skapast ró og öryggi sem er nauðsynlegt bæði fyrir börnin og starfsfólkið.

Fyrri greinÖruggur heimasigur í Hveragerði
Næsta greinKveikt á jólaljósunum í kvöld