Alblóðugur eftir nefbrot

Komið var að ungum manni blóðugum í andliti á göngustíg við Hrísmýri á Selfossi um klukkan þrjú aðfaranótt sunnudags.

Ráðist hafði verið á unga manninn með þeim afleiðingum að hann nefbrotnaði. Lögregla hafði uppá árásarmanninum skömmu síðar og kannaðist hann við að hafa slegið til mannsins en það hafi verið í vörn við áreiti hins.

Margt fólk var á ferli í umdæmi lögreglunnar á Selfossi liðna helgi. Lögreglumenn voru kallaðir til margvíslegra verkefna þar sem þurfti að sinna, aðstoða og leiðbeina aðkomufólki en engin alvarleg atvik urðu í umdæminu um helgina utan tveggja líkamsárása.

Einn var kærður fyrir að hafa í vörslum sínum kannabisefni og 34 ökumenn voru kærðir fyrir hraðakstur, tveir fyrir ölvunarakstur og einn fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna.

Fyrri greinAlvarleg líkamsárás í sumarbústað
Næsta greinEnn hverfa hnakkar á Selfossi