Til að bregðast við gífurlegum hækkunum á fasteignamati og koma til móts við íbúa í Hveragerði ætlar meirihluti Okkar Hveragerðis og Framsóknar að lækka álagningarprósentuna líkt og bæjarstjórn hefur gert undanfarin ár.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá oddvitum listanna; Söndru Sigurðardóttur og Jóhönnu Ýr Jóhannsdóttur. Fram hefur komið í fréttum að hvergi á landinu hækkar fasteignamat eins mikið og í Hveragerði.
„Heildar fasteignamat hækkar um 32,3% á milli ára og þessari hækkun þarf að bregðast við. Vinnu þessari verður vísað til gerðar fjárhagsáætlunar. Vinsældir bæjarins til búsetu eru ótvíræðar og þeirri eftirspurn verður fylgt eftir með auknu framboði á lóðum,“ segir í tilkynningu meirihlutans.