Álag á útsvar Árborgarbúa og fasteignagjöld hækka

Ráðhús Árborgar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Fjárhagsáætlun Sveitarfélagsins Árborgar fyrir árið 2024 var lögð fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn í dag. Til að mæta fjárhagslegum skuldbindingum sveitarfélagsins er gert ráð fyrir því að hluti fasteignagjalda á bæði atvinnu- og íbúðarhúsnæði hækki, álag upp á tæplega 1,5% verði sett á hámarksútsvar auk þess sem almennar hækkanir verði á gjaldskrám sveitarfélagsins.

Fjóla St. Kristinsdóttir, bæjarstjóri, segir að fjárhagsáætlun 2024 miði fyrst og fremst að því að gæta aðhalds, auka tekjur og ná utan um reksturinn til lengri tíma.

„Áfram er hagræðingarkrafa á alla málaflokka en lögð er áhersla á að verja velferðarþjónustuna og aðra grunnþjónustu við fjölskyldur. Engu að síður þarf mögulega að taka óvinsælar ákvarðanir sem dregið gætu úr þjónustu sveitarfélagsins til skamms tíma,” segir Fjóla.

Gert er ráð fyrir að rekstrarniðurstaða A- og B hluta samstæðunnar verði jákvæð sem nemur 30 milljónum og að EBITDA verði jákvæð um rúma 3 milljarða króna. Veltufé frá rekstri er áætlað tæplega 2,3 milljarðar króna á samstæðu sveitarfélagsins og að framlegðarhlutfallið verði 16,4% sem er hækkun um 9,5 prósent frá útkomuspá fyrir árið 2023.

Unnið að frekari hagræðingu
„Þrátt fyrir jákvæða niðurstöðu og þann góða árangur sem er að nást er það ekki í fullu samræmi við samþykkt markmið aðgerðaráætlunar, sem send var til Eftirlitsnefndar sveitarfélaga og Árborg er skuldbundið af á grundvelli samnings við innviðarráðherra,“ segir í tilkynningu frá sveitarfélaginu. Fyrir seinni umræðu um fjárhagsáætlun munu bæjarstjórn og starfsmenn Árborgar halda áfram að vinna að því að ná fram frekari hagræðingu og aukinni tekjuöflun á næstu árum.

Í fjárhagsáætlunninni er lögð áhersla á að standa vörð um grunnþjónustu við íbúa og eru þar mennta- og velferðarmál og farsæld barna í lykilhlutverki. Frístundastyrkur fyrir börn verður áfram í boði og nú fá 4-5 ára börn einnig frístundastyrk upp á 20 þúsund krónur en 6-17 ára fá áfram 45 þúsund króna styrk.

Verulega íþyngjandi aðgerðir
„Bæjarstjórn Árborgar gerir sér grein fyrir því að þær álögur og gjaldskrárhækkanir sem hér eru kynntar eru verulega íþyngjandi fyrir íbúa. Mikilvægt er því að hafa í huga að aðgerðir líkt og aukið álag á útsvar er aðeins hugsuð til tveggja ára. Á sama tíma vinnur bæjarstjórnin hörðum höndum að því að rýna áfram reksturinn til að tryggja aukna framlegð svo hægt sé að standa undir þeim skuldbindingum sem sveitarfélaginu ber að veita. Samhliða sölu eigna verður unnið að þeim fjárfestingum sem stuðla að tekjuaukningu auk þess sem hugað verður að viðhaldi og innviðum í ört vaxandi samfélagi,“ segir í tilkynningunni.

Nánari útskýring á fasteignagjöldum, útsvari og gjaldskrárhækkunum

  • Fasteignagjöld skiptast í fasteignaskatt, lóðarleigu, fráveitu- og vatnsgjalda og sorphirðugjalda.
  • Fasteignaskatturinn hækkar á milli ára um 0,046 prósent af fasteignamati íbúðarhúsnæðis og 0,05 prósent af atvinnuhúsnæði. Lóðarleiga mun haldast óbreytt milli ára.
  • Fráveitugjaldið er 0,10 prósent af fasteignamati en hækkar í 0,18 prósent árið 2024 ásamt því að vatnsgjald fer úr 0,15 prósentum í 0,172 prósent.
  • Sorphirðugjaldið hækkar um 3% milli ára sem er undir almennu verðlagi en vel hefur gengið að innleiða nýtt flokkunarkerfi. Góð flokkun íbúa skilar sveitarfélaginu auknum tekjum úr úrvinnslusjóði sem um leið hefur jákvæð áhrif á sorphirðugjaldið.
  • Útsvar fyrir árið 2024 verður hækkað í 16,214 prósent. Almennar gjaldskrárhækkanir verða 7,7 prósent sem er í samræmi við forsendur fjárhagsáætlunar.
Fyrri greinKakó, kertaljós og jólabækur
Næsta grein75 ára gömul kvikmynd úr Rangárvallasýslu