Ákvörðun FF breytir engu um áherslur Karls Gauta sem þingmaður

Karl Gauti Hjaltason.

Karl Gauti Hjaltason, 8. þingmaður Suðurkjördæmis, segir að fjölmiðlar hafi ranglega eignað sér setningu úr upptökunni af Klaustur bar sem svo mjög hefur verið í fréttum að undanförnu.

„Þar fara þeir einfaldlega mannavillt og vonandi kemst það álíka vel til skila eins og uppslátturinn um það sem ég átti að hafa sagt um Eygló Harðardóttur. Upptakan er afar óskýr en það vefst samt ekki fyrir fjölmiðlum að greina annars vegar hvað er sagt og hins vegar hver talaði. Sjálfur get ég hvorugt eftir að hafa marghlustað á þetta brot úr upptökunni. Ég þekki hins vegar mitt orðfæri og mína rödd. Þessi orð voru ekki mín og sú rödd sem talar er það ekki heldur,“ segir Karl Gauti í yfirlýsingu sem hann sendi fjölmiðlum í dag.

„Það er ekki hægt að gera athugasemdir við að fjölmiðlar birti efni úr upptöku af þessu tagi úr því að hún er til. Það er hins vegar mikilvægt að þeir nálgist slíka endursögn af varfærni og lágmarkskrafa er að þeir viti nákvæmlega hver sagði hvað þegar þeir velja sér uppsláttarfyrirsagnir um einstakar setningar,“ bætir Karl Gauti við.

Hann segir að sér þyki leitt að hafa setið þennan fund alltof lengi en sjálfur hafi hann ekkert lagt það orð í belg sem talist getur siðferðislega ámælisvert.

„Ákvörðun stjórnar Flokks fólksins mun engu breyta um áherslur mínar í áframhaldandi störfum mínum sem þingmaður. Ég gaf kjósendum mínum fyrirheit um áherslur og við þau mun ég standa,“ segir Karl Gauti ennfremur í yfirlýsingunni.

Fyrri greinKlausturfokk
Næsta greinNaumt tap á heimavelli