Ákvörðun um umhverfismat innan tíðar

Gert er ráð fyrir að ákvörðun um umhverfismat vegna virkjunar í Ölfusá við Selfoss verði tekin innan tíðar.

Að sögn Elfu Daggar Þórðardóttur, formanns stjórnar veitustofnana Árborgar, er verið að ganga frá viljayfirlýsingu við Vegagerðina um framhald málsins og í framhaldi af því verði ráðist í umhverfismat. Umhverfismat vegna virkjunarinnar kostar á milli 40 og 60 milljónir króna og leggst sá kostnaður alfarið á sveitarfélagið.

Að sögn Elfu Daggar er ljóst að ákvörðun um virkjun verður aðeins í tengslum við fyrirhugaða brúargerð. Gert er ráð fyrir að gerð strengjabrúar yfir Ölfusá kosti á bilinu 2,6 til 3 milljarða króna en brú og virkjun myndi kosta á bilinu 8 til 10 milljarða króna. Kostnaðurinn við brúna og samþætting við virkjunina er í raun það atriði sem réttlætir virkjun og því mikilvægt að ákvörðun sé tekin sem fyrst, áður en hönnun við brú verður meiri.

Umhverfismat tekur til margra þátta, svo sem laxagengdar, grunnvatnsstöðu, rennsli í Ölfusá og flóðahættu. Að sögn Elfu Daggar gætu stíflugerð og frárennslisgöng auðveldað að hafa stjórn á flóðum í Ölfusá. Virkjunin gæti því dregið úr flóðahættu að einhverju leyti.

Fyrri greinSegja sig úr samráðshópi um skólamál
Næsta grein…ákaflega skýr og fagur