Ákvörðun um Ölfusárvirkjun flýtt

Fulltrúar S-listans í bæjarstjórn Árborgar lögðu fram tillögu á síðasta fundi um að frekari vinnu vegna hugmynda um virkjun Ölfusár við Selfoss verði hætt.

Arna Ír Gunnarsdóttir fylgdi tillögunni úr hlaði og sagði að nú þegar hafi verið lagðar tæpar tíu milljónir króna til verkefnisins. „Ekki hafa verið lagðir fram arðsemisútreikningar vegna verkefnisins auk þess sem óvissa ríkir um fjármögnun og fjölmarga aðra þætti, ekki síst umhverfis- og áhættulega,“ sagði Arna Ír og bætti við að af viðbrögðum landeigenda, veiðiréttarhafa og íbúa á Selfossi virtist vera óánægja með málið.

Arna Ír sagði að það að stjórn sveitarfélags fari út í slíka áhættu væri vægast sagt óábyrgt. Meirihlutinn ætti að hætta þegar í stað vinnu við verkefnið og snúa sér að öðrum mikilvægari málum.

D-listinn hefur fimm manna meirihluta í bæjarstjórn Árborgar en hann var ósamstíga í afgreiðslu málsins. Tillaga S-listans var felld með fjórum atkvæðum sjálfstæðismanna en fimmti sjálfstæðismaðurinn, Elfa Dögg Þórðardóttir, sat hjá ásamt bæjarfulltrúum Framsóknar og Vinstri grænna.

Að lokinni umræðu um tillöguna lagði D-listinn fram tillögu sem samþykkt var samhljóða. Þar var ákveðið að fara í þverfaglega vinnu vegna hugmynda um Selfossvirkjun og vinna málið í nefndum innan stjórnkerfisins til að flýta ákvarðanatöku í málinu.

Fyrri grein40 milljónir til að styrkja gróður
Næsta greinGagnvirk orkusýning í Búrfellsstöð