Ákvörðun um eignarnám ógilt

Hæstiréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Suðurlands sem ógilti ákvörðun Hrunamannahrepps um að taka eignarnámi land í eigu Árna Hjaltasonar við veitingastaðinn Útlagann á Flúðum.

Hrunamannahreppur þarf að greiða Árna hálfa milljón króna í málskostnað.

Landareignina átti að taka eignarnámi vegna lagningar Bakkatúnsvegar en ákveðið var að taka landið eignarnámi að fenginni umsögn Skipulagsstofnunar. Umsögnin var hins vegar dregin til baka eftir ábendingar um að hún hefði verið byggð á ófullkomnum gögnum.

Í nýrri umsögn var fallist á eignarnám á hluta landsins. Hrunamannahreppur ákvað aftur að taka land Árna eignarnámi, á grundvelli nýju umsagnarinnar. Í niðurstöðu héraðsdóms, sem Hæstiréttur staðfesti, er málsmeðferð hreppsnefndarinnar gagnrýnd harkalega og hún sögð meingölluð. Þannig hefði Árna ekki verið kynnt ný umsögn Skipulagsstofnunar, fyrri ákvörðun um eignarnám ekki verið afturkölluð, Árna ekki tilkynnt að mál hans væri á ný komið til meðferðar hjá Hrunamannahreppi og ekki var reynt að ná samkomulagi við hann eftir að ný umsögn Skipulagsstofnunar lá fyrir. Loks var brotið á andmælarétti Árna.

Var því fallist á kröfu Árna um ógildingu ákvörðunar Hrunamannahrepps um að taka land hans eignarnámi.

RÚV greindi frá þessu.

Fyrri greinJólaleg stemmning á Selfossi
Næsta greinJólasýning undir stiganum