Ákvörðun ráðherra ógilt

Hæstiréttur hefur staðfest niðurstöðu Héraðsdóms Suðurlands, að ógilda beri ákvörðun ráðherra, sem hafnaði því að staðfesta breytingu á aðalskipulagi Flóahrepps vegna Urriðafossvirkjunar.

Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra, synjaði í janúar á síðasta ári að staðfesta hluta aðalskipulags Flóahrepps sem varðaði Urriðafossvirkjun. Byggði Svandís ákvörðun sína á því að greiðsla Landsvirkjunar á viðbótarkostnaði sveitarfélagsins við gerð aðalskipulagsins vegna virkjunarinnar hafi verið andstæð ákvæðum þágildandi skipulags- og byggingarlaga.

Flóahreppur kærði synjunina og héraðsdómur ógilti hana á þeim grundvelli að lög bönnuðu ekki að framkvæmdaraðili greiddi fyrir kostnað vegna skipulagsvinnu.

Héraðsdómur féllst á þá kröfu og nú hefur Hæstiréttur staðfest þá niðurstöðu. Segir dómurinn að hvergi sé í skipulags- og byggingarlögum heimild til ráðherra að synja um staðfestingu aðalskipulags að hluta.

Þá segir Hæstiréttur að ákvæði í samningi Flóahrepps og Landsvirkjunar um að Landsvirkjun greiði viðbótarkostnað sveitarfélagsins við gerð aðalskipulagsins vegna virkjunarinnar hafi ekki haft áhrif á það hvort gert yrði ráð fyrir virkjuninni í aðalskipulagi hreppsins.

Fyrri greinNafnlaust bréf sent nágrönnum
Næsta greinFrestað hjá Hamri